143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

myglusveppur og tjón af völdum hans.

96. mál
[16:41]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir með síðasta hv. þingmanni, sem hér stóð, og vil þakka nefndinni fyrir að vera einhuga í þessu máli enda fær maður ekki séð að nokkur geti verið á móti því. Þetta er ekki bara heilbrigðisvandamál, þó að það sé það að stærsta leyti, heldur getur líka haft í för með sér, eins og hér hefur komið fram, stórkostlega búseturöskun fyrir fólk.

Ég tek undir það með hv. framsögumanni, Katrínu Júlíusdóttur, að ég tel nauðsynlegt að nefndin fái þann tíma sem henni var ætlaður, sex mánuði. Ég tek líka undir það með hv. 1. flutningsmanni að þennan starfshóp er mjög nauðsynlegt að skipa sem allra fyrst. Það kemur fram í greinargerðinni að afar nauðsynlegt sé að það sem snýr að þessu, öll lög og allar reglugerðir, verði tekið til heildstæðrar skoðunar, bæði það sem varðar myglusveppinn og það tjón sem hann veldur mjög víða. Eflaust er yfir margt að fara, við vitum að sumir bíða þess aldrei bætur að hafa einhvern tíma átt heima í slíku húsi, aðrir ná sér á strik. Ég þekki líka of mörg dæmi um fólk sem hefur búið við slíkt ástand og býr við heilsubrest í framhaldinu eða hefur misst allt ofan af sér.

Það er mjög sorglegt þegar fólk kaupir sér íbúð eða húsnæði í þeirri góðu trú að það sé allt byggt og unnið samkvæmt lögum og reglugerðum, húsnæði sem þar til bærir aðilar hafi tekið út. Ég hef ekki mikla trú á því að þeir sem eru að kaupa sér íbúðir almennt leggi það á sig að lesa sig í gegnum allt sem lýtur að byggingareglugerðum eða einhverju slíku, heldur treysti það því að þeir embættismenn sem eiga að sjá til þess að allt sé gert með löglegum hætti geri það. En eins og fram kemur í nefndarálitinu skortir kannski upplýsingar og það kemur manni á óvart, miðað við hvað þetta er búið að vera í umræðu lengi og í mörg ár. Þó að umræðan hafi vissulega farið vaxandi hin allra síðustu ár, þá er þetta samt búið að vera mjög lengi í umræðunni. Mér finnst það mjög skrýtið ef þeir sem eru að kenna þessar greinar upplýsa ekki með viðunandi hætti hvað getur orðið til þess að svona ástand skapist. Mér finnst það mjög skrýtið ef það er þannig. Auðvitað þarf í þessu eins og í öðru að auka rannsóknir og efla þær til að allir séu með á því hvernig standa beri að byggingum.

Ef maður horfir til þess sem fólk sem lendir í þessu stendur frammi fyrir; það missir jafnvel allt ofan af sér, það er að borga af húsnæði sínu þrátt fyrir að það sé ónýtt. Eins og hv. þingmaður og 1. framsögumaður benti á eru þetta hamfarir sem ríða yfir fjölskyldur. Þær geta hvergi höfði sínu hallað vegna þess að ekkert í kerfinu tekur á móti þeim. Það er mjög miður að þurfa að stóla á ættingja, vini og aðra til þess hreinlega að eiga sér samastað. Fólk hefur ekki fjárhagslegt bolmagn til að borga af húsnæði sem jafnvel er ónýtt, húsnæði sem það getur ekki búið í, og þarf á sama tíma að leita sér að öðru húsnæði, eða á náðir annarra, vegna þess að tryggingafélögin taka ekki þátt í þessu tjóni. Auðvitað finnst manni ekkert óeðlilegt við það að fólk, sem verður fyrir slíku, spyrji hvers vegna þetta sé ekki bætt með einhverjum hætti í tryggingum. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, það er mjög mikilvægur þáttur að tryggingamálið verði hér undir líka, þ.e. tryggingafélögin. Það er kannski það sem kemur fram hér að öll lög og reglur sem snúa að þessu verði löguð á þann veg að fólk geti átt von á því að geta staðið upprétt þrátt fyrir að missa húsnæðið sitt. Það er auðvitað afar dapurt að standa frammi fyrir því, heilsan léleg, tryggingarnar bæta ekki tjónið, börnin þurfa að skipta um skóla, eða hvað það nú er, fólk þarf jafnvel að skipta um sveitarfélag vegna þess að það á ekki inni annars staðar. Það er því mjög margt í þessu sem þeir einir sem hafa í því lent átta sig á, þ.e. hversu umfangsmikið raskið er.

Það eru miklu fleiri en við áttum okkur á sem eru jafnvel veikir án þess að gera sér grein fyrir því að þetta getur verið orsökin. Ég hef verið að fylgjast með fjölskyldu sem keypti sér húsnæði í Noregi, ung hjón með börn sem voru nýlega búin að fjárfesta í húsnæði. Staðan er þannig að þau þurftu að flytja heim aftur, fara með málið í lögfræðinga, það er verið að reyna að finna lausn á því en það er kannski ekki einfalt og maður hélt. Hér er talað um að Norðurlandaþjóðirnar hafi unnið mikið starf og að hægt sé að nota það sem fyrirmyndir, en þau standa að minnsta kosti frammi fyrir því að geta ekki verið með nýfætt barn og önnur eldri þarna og hafa hvorki tök á því að fjárfesta né leigja sér annað húsnæði. Þau eru þar af leiðandi komin heim til ættingja, þannig að brotalöm virðist vera mjög víða.

Við höfum líka dæmi af kanadísku húsunum og mörgum öðrum, eins og vitnað var í áðan, nýlegum húsum. Við töluðum í fyrri ræðum um það sem gerðist fyrir austan þar sem verið var að byggja ný hús og líka hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem þau risu eins og gorkúlur. Þess var ekki gætt að ganga þannig frá að þetta gæti ekki gerst og eftirlitið virtist vera mjög bágborið. Það er það sem við kannski stöndum frammi fyrir að eftirlitið er ekki sem skyldi með þeim aðilum sem eru að byggja.

Ég vona að starfshópurinn nái að vinna þá vinnu sem þarf á þeim stutta tíma sem hann hefur til stefnu af því að sumarið er jú undir, ef tíminn er sex til sjö mánuðir er sumarið undir. Ég fagna því að þetta mál verði afgreitt hér. Ég hef enga trú á öðru en að það fái framgöngu hér í þinginu þar sem allir flokkar styðja það.