143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

stuðningur við sjálfsákvörðunarrétt íbúa Vestur-Sahara.

88. mál
[16:55]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti og framhaldsnefndaráliti hv. utanríkismálanefndar um þingsályktunartillögu um stuðning við sjálfsákvörðunarrétt íbúa Vestur-Sahara. Ég geri það í fjarveru Árna Þórs Sigurðssonar hv. þm., sem var skipaður framsögumaður með þessu máli. Þetta er tillaga sem var mælt fyrir í október af hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur, varaþingmanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, en auk hennar eru á tillögunni sú sem hér stendur og hv. þingmenn Steingrímur J. Sigfússon, Birgitta Jónsdóttir, Róbert Marshall, Helgi Hjörvar, Björk Vilhjálmsdóttir og Höskuldur Þórhallsson.

Tillagan hljóðaði svo að Alþingi ályktaði að fela utanríkisráðherra að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að sjálfsákvörðunarréttur íbúa Vestur-Sahara yrði virtur.

Kannski eru ekki allir hv. þingmenn vel heima í landafræðinni í kringum Vestur-Sahara, sem er land á norðvesturströnd Afríku, fámennt og strjálbýlt land þar sem býr um hálf milljón manna. Til ársins 1975 laut þetta land stjórn Spánverja og nefndist þá Spænska-Sahara, en íbúar landsins bundu vonir við að öðlast sjálfstæði við brottför Spánverja, en því miður þróuðust mál með þeim hætti að nágrannaríki réðust inn í landið, Marokkó úr norðri og Márítanía úr suðri og að lokum hernámu Marokkómenn landið og hafa farið með völd til þessa dags.

Eins og komið hefur fram í umfjöllun um þetta mál er þetta land ríkt af auðlindum og má því miður segja að þarna hefur farið fram mikil rányrkja á þeim auðlindum sem þarna má finna og unnið hefur verið að því með markvissum hætti að innlima svæðið. Sahrawi-þjóðin, sem eru sem sagt íbúar Vestur-Sahara, býr nú ýmist innan landamæra Vestur-Sahara, eða í flóttamannabúðum í Alsír.

Um margra ára skeið var þarna vopnuð barátta á milli Marokkóhers og Polisario, sem var sjálfstæðishreyfing Vestur-Sahara, en árið 1991 var samið um vopnahlé sem hefur haldið til þessa dags með hjálp friðargæsluliðs Sameinuðu þjóðanna. Sameinuðu þjóðirnar hafa aldrei viðurkennt innlimun Marokkós á Vestur-Sahara og þetta hefur verið skilgreint sem svæði sem ekki nýtur sjálfsstjórnar. Þarna er um fámenna þjóð að ræða í afskekktu ríki, kannski eitthvað sem við Íslendingar finnum til ákveðinnar samkenndar með. Örlög þessa lands skipta stórveldi heimsins kannski ekki miklu máli og auðvitað hafa mörg ríki heims talið það mikilvægt að halda góðum samskiptum og tengslum við Marokkó. Það er hins vegar mikilvægt að Íslendingar láti sig þetta málefni varða, því að eins og ég segi er ekki óeðlilegt að við finnum til samkenndar með þessari fámennu og afskekktu þjóð.

Hér liggja fyrir annars vegar nefndarálit og síðan framhaldsnefndarálit, en hv. utanríkismálanefnd hefur fjallað um þetta mál og fengið til sín gesti, Hermann Ingólfsson og Estrid Brekkan frá utanríkisráðuneyti og Stefán Pálsson og Ragnar Hjálmarsson frá Vinafélagi Vestur-Sahara. Umsagnir bárust nefndinni frá utanríkisráðuneyti, Vinafélagi Vestur-Sahara og Þróunarsamvinnustofnun Íslands.

Ég hef hér farið yfir hvað felst í tillögunni. Í umsögn utanríkisráðuneytisins kemur fram að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi árlega undanfarinn áratug samþykkt einróma ályktanir sem kveða m.a. á um að sjálfsákvörðunarréttur íbúa Vestur-Sahara skuli virtur í samræmi við stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og hefur stuðningi verið lýst við áframhaldandi aðgerðir Sameinuðu þjóðanna til að hlutast til um pólitíska lausn. Fram kom í máli gesta á fundum nefndarinnar að leggja bæri áherslu á að friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna, sem starfað hefur í Vestur-Sahara frá árinu 1991, fái umboð til að fylgjast með ástandi mannréttinda. Það liggur líka fyrir að ýmsar alþjóðastofnanir og mannréttindasamtök hafa lýst yfir áhyggjum af stöðu mannréttinda og mannúðarmála í Vestur-Sahara. Íslensk stjórnvöld hafa stutt breytingar á umboði friðargæsluliðs Sameinuðu þjóðanna svo einnig felist í því eftirlit með mannréttindamálum.

Ljóst er af umsögnum og máli gesta á fundum nefndarinnar að stefna íslenskra stjórnvalda er í samræmi við fyrirliggjandi tillögu til þingsályktunar um stuðning við sjálfsákvörðunarrétt íbúa Vestur-Sahara. Nefndin lítur svo á að tillagan sé hvatning til utanríkisráðherra um að beita sér með virkum hætti á alþjóðavettvangi fyrir þeirri stefnu sem stjórnvöld aðhyllast nú þegar.

Í framhaldsnefndarálitinu sem hér liggur einnig fyrir kemur fram að nefndin fjallaði um málið á nýjan leik, því að eftir að nefndin afgreiddi málið til síðari umræðu komu fram ábendingar um að heppilegt væri að vísa til ályktana öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í sjálfri tillögugreininni. Því er hér lögð fram breytingartillaga við tillöguna.

Hún er sú að tillögugreinin orðist svo:

„Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að sjálfsákvörðunarréttur íbúa Vestur-Sahara verði virtur í samræmi við ályktanir öryggisráðs og allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og styðja viðleitni til að finna friðsamlega og varanlega pólitíska lausn.“

Undir þetta framhaldsnefndarálit og breytingartillögu rita hv. þingmenn Birgir Ármannsson formaður, Ásmundur Einar Daðason, Katrín Jakobsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Össur Skarphéðinsson.

Tillagan er því afgreidd frá hv. utanríkismálanefnd í mjög góðri sátt. Ég vil nota tækifærið hér og segja um leið og ég lýsi þeirri einlægu von minni að tillagan verði afgreidd hér frá þinginu, að ég tel þetta vera í takt við þá stefnu sem íslensk stjórnvöld hafa sýnt, að styðja smáþjóðir sem berjast fyrir sjálfstæði sínu á alþjóðavettvangi og um leið í takt við þá stefnu að berjast gegn mannréttindabrotum hvar sem þau eru iðkuð. Það hefur sýnt sig að stundum skiptir máli að litlar þjóðir eins og Íslendingar láti rödd sína heyrast á alþjóðavettvangi. Það getur haft áhrif.

Ég tel því að samþykkt þessarar tillögu sé í fullu samræmi við margt það sem áður hefur verið gert og samþykkt hér á Íslandi. Ég nefni til að mynda þann stuðning Íslendingar hafa sýnt sjálfstæðisbaráttu Austur-Tímor, sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna og Palestínu. Ég tel að með þessum hætti geti íslensk stjórnvöld lagt mjög mikilvægt lóð á vogarskálar friðar og lýðræðis í Norðvestur-Afríku.

Ég vil líka nota tækifærið til að þakka hv. utanríkismálanefnd fyrir gott starf og samtal um þessa tillögu. Það er svo sannarlega til fyrirmyndar að ná samhljómi um tillögu sem þessa. Ég legg því til í þessari síðari umræðu að tillagan hljóti hér afgreiðslu og ég vona svo sannarlega að það muni hafa jákvæðar afleiðingar fyrir íbúa þessa svæðis.