143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum.

70. mál
[17:23]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað um að þetta mál fái að fara í þann farveg sem lagt er til. Ég sat í velferðarnefnd á síðasta þingi þegar málið var lagt fyrir þar sem umsagnaraðilar eða gestir voru á fundi og var afar ánægjulegt að eiga þess kost að heyra þau ólíku sjónarmið sem komu fram.

Málið snýst um rétt barns til samvista við báða foreldra sína um leið og það snýst um fjárhagslega stöðu foreldra og að þeir eigi þess kost að sinna þörfum barna sinna á viðunandi hátt, þ.e. það snýst líka um réttinn til framfærslu. Mér finnst mjög mikilvægt að það sé lagað, þ.e. sú brotalöm sem þetta frumvarp byggir á, og að reynt sé að rétta hag allra þessara aðila, fjölskyldunnar sem slíkrar, hvernig sem hún býr, svo að hún geti boðið barninu sínu upp á gott umhverfi.

Það er auðvitað óásættanlegt í sjálfu sér að eiga barn en vera ekki skráð foreldri. Það er líka óásættanlegt að geta ekki fengið, hvorki frá almannatryggingum eða öðrum, jafna framfærslu á við hitt foreldrið. Ég veit ekki hvort lögheimilisskráning sé endilega málið, enda kemur fram í tillögunni að breyta mætti því, hvort sem það er lögheimili eða eitthvað annað, sem þarf til þess eða hafa annað fyrirkomulag jafnrar búsetu. Það er vísað til Noregs og að það sé ekki endilega tvöfalt lögheimili sem skipti máli heldur hvað annað sem tryggir þennan rétt.

Eins og kemur fram hér hefur færst í aukana að foreldrar séu með sameiginlega forsjá og maður veltir fyrir sér ef foreldrar ná samkomulagi um sameiginlega forsjá hvort það geti ekki verið grundvöllur þess að kerfið fylgi með, að fólk fái barnabætur eða eigi rétt á leikskólaplássi eða hvað það nú er sem málið snýst um hverju sinni. Ég get vel skilið að það sé flókið að eiga tvö lögheimili, en sameiginleg forsjá hlýtur að geta dekkað réttinn til alls opinbers stuðnings og það verður áhugavert að sjá hver niðurstaða nefndarinnar verður, því að auðvitað vitum við að þetta snýr mjög mikið að feðrum, forsjárlausir feður hafa látið að sér kveða.

Nú var ég eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson á vaktinni hér og gat því ekki sótt þetta málþing sem var haldið áðan, en Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður Vinstri grænna var þar fyrir okkar hönd og var þar í pallborði og verður áhugavert að heyra hvernig var. En fyrst til alls er þessi umræða, það að hún sé komin hér inn, að við séum að fara með málið í þetta ferli, að það deyi ekki hér og sofni ekki heldur í einhverri nefnd heldur verði skilað innan tilskilins tíma. Það er það sem skiptir máli, að málið hverfi ekki, af því að það er gríðarlega mikill aðstöðumunur milli foreldra. Það foreldri sem fer eitt með forræði einhverra hluta vegna, vegna þess að ekki hefur náðst samkomulag eða eitthvað slíkt, það er líka margt undir sem þarf að skoða. En fyrst og fremst held ég að við þurfum að sjá til þess að réttur barnsins sé best tryggður með því að báðir foreldrar eigi þess kost og geti notið sambærilegrar fyrirgreiðslu frá ríki og sveitarfélagi til þess að geta sinnt barni sínu sem best.

Ég tek líka undir varðandi næsta mál hér á eftir sem fjallar um skráningu á búsetuformi, fjölskylduformi, ég held að það sé afar mikilvægt að þeim upplýsingum sé skipulega fyrir komið. Eins og kemur fram í því frumvarpi eru allar þessar upplýsingar til, þetta snýst um hvernig þær eru birtar og ég held að það sé eitthvað sem er nauðsynlegt að klára til þess að geta haldið betur utan um þetta.