143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

skráning upplýsinga um umgengnisforeldra.

71. mál
[17:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu um skráningu umgengnisforeldra og hér á undan var mælt fyrir nefndaráliti um þingsályktunartillögu um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum. Óhjákvæmilega tengjast þessi mál þó nokkuð og mig langar að leggja nokkur orð í belg, blanda þessu kannski hvorutveggja þar sem ég náði ekki að vera við umræðuna í málinu hér á undan um jafnt búsetuform.

Tillagan um skráningu umgengnisforeldra gengur út á að haldin verði skrá og sögulegt yfirlit yfir umgengnisforeldra, fjölda þeirra, kyn, hjúskaparstöðu og fjölda barna þeirra. Það hefur auðvitað komið skýrt fram fyrir nefndinni að bæta þurfi almannaskráningu í landinu, að það sé mjög brýnt, og að allar nauðsynlegar upplýsingar um fjölskyldumynstur landsmanna liggi fyrir. Það hefur breyst mikið í gegnum árin og er mjög brýnt að það liggi fyrir þar sem það er aðgengilegt. Þetta skráningarkerfi, eins og það er í dag, er því miður í miklum lamasessi, og eins og kom fram hjá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni hér á undan þá eru, í opinberri skráningu, umgengnisforeldrar skráðir barnlausir og því er öll aukin skráning og utanumhald af því góða fyrir alla aðila og líka réttindi þeirra foreldra sem eru umgengnisforeldrar, það þarf að styðja við eðlilega kröfu þeirra til meiri réttar í kerfinu frá því sem nú er.

Sú umræða er mjög sterk og var málþing um það í dag í Háskóla Íslands að skoða þyrfti þessi mál frá öllum hliðum, jafnt rétt barnsins til umgengni við báða foreldra og líka rétt foreldranna sín á milli eftir skilnað, hvernig opinberum stuðningi er háttað, hvort hann sé eingöngu, eins og er í dag, bundinn lögheimili barnsins eða hvort endurskoða þurfi það miðað við breyttar þjóðfélagsaðstæður og aukna þátttöku feðra í uppeldi barna sinna, þeir vilja koma að því uppeldi áfram þó að skilnaður verði á milli foreldra. Ég tel að skoða þurfi vel allan þann aðstöðumun sem kann að vera á milli foreldra eftir skilnað í dag og horfa til stuðnings frá almannatryggingakerfinu til foreldra. Sem betur fer vilja flestir foreldrar að sameiginleg forsjá verði með barni og það er skylt að byrja á því að fara sáttaleiðina, sem ég tel vera mjög mikilvægt svo að vel vinnist úr málum í framhaldi af skilnaði gagnvart barninu og öllum samskiptum.

Það kom líka fram í umræðunni áðan að upplýsingagjöf til foreldra getur verið mjög misjöfn eftir því hvar barnið á lögheimili, upplýsingarnar koma á það heimili sem lögheimili barnsins er. Ég tel líka mjög mikilvægt að það sem verið er að skoða um að jafna þetta búsetuform — það hefur auðvitað verið í umræðunni að hægt væri að hafa tvö lögheimili, sem ég held að geti nú verið ansi snúið og flækt stöðu barnsins — en hvernig sem það endar þarf að hafa að leiðarljósi, við þær breytingar sem hugsanlega verða gerðar á kerfinu, að hagsmunir barnsins verði alltaf ofan á og það verði jákvætt fyrir barnið sjálft hvernig þær breytingar verði til þess að jafna rétt milli foreldra eftir skilnað. Það er líka mjög mikilvægt að þessi samfella sé í lífi barnsins sem mest og best eftir skilnað þegar horft er til þess að jafna aðstöðumun foreldra varðandi búsetuformið.

Þetta vildi ég segja í þessari umræðu og blandaði aðeins saman hinu fyrra máli sem lá hér undir og var mælt fyrir áðan þar sem ég náði ekki að koma í umræðuna þá. Ég styð heils hugar bæði þessi mál og tel að þetta sé sameiginlegt verkefni okkar, hvar sem við stöndum í pólitíkinni, að vinna vel úr miðað við breyttar aðstæður varðandi fjölskylduform og alltaf með hagsmuni barnsins að leiðarljósi.