143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

breyttir skilmálar á skuldabréfi Landsbankans.

[10:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Fyrst varðandi aðkomu ráðuneytis og þings og eftir atvikum samráðshóps stjórnmálaflokkanna vegna afnáms gjaldeyrishaftanna þá var aðkoma ráðuneytisins engin að endurgerð skilmála þessa Landsbankabréfs, enda hefur bankinn eigin stjórn og stjórnendur bankans taka í samvinnu við stjórnina ákvörðun um gerð lánasamninga og skilmála þeirra sem þeir fylgja.

Það gerist hins vegar í þessu máli að lánveitandinn, hinn gamli Landsbanki, setur þann fyrirvara við skilmálabreytinguna að undanþágur fáist frá gjaldeyrishöftunum og Landsbankinn er ekki í neinni stöðu til að semja um slíkar undanþágur og þær hafa ekki verið til umræðu í fjármálaráðuneytinu og þess vegna ekki í þinginu eða á þessum samráðsvettvangi þar sem greinilegt er að lagt var upp með að það gerðist á síðari stigum.

Hvers vegna eru kjörin eins og þau eru? Það er ekki gott að svara því. Það er a.m.k. ljóst að það voru mjög sérstakar aðstæður þegar um þetta bréf var samið og kannski ekki um hefðbundna fjármögnun að ræða fyrir nýja Landsbankann á þeim tíma. Hins vegar ber að athuga það að nýja Landsbankanum er hvenær sem er heimilt að greiða þetta lán upp að fullu fái hann betri kjör annars staðar. Að öðru leyti get ég ekki tjáð mig um hversu hagstætt eða óhagstætt það er fyrir bankann að búa við þau kjör sem þarna er um að ræða. Aðalatriðið er að þegar kemur að ákvörðunum sem snúa að því hvernig við tökum skref í átt að afnámi hafta þá sé hvert og eitt skref í takt við ákveðna heildaráætlun. Það verður verkefni okkar í framhaldinu að tryggja að engar ákvarðanir verði teknar í þessu máli sem gera okkur erfiðara fyrir með síðari (Forseti hringir.) stig málsins hvað varðar afnám gjaldeyrishaftanna.