143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

breyttir skilmálar á skuldabréfi Landsbankans.

[10:46]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svarið og skil það þannig að ríkisstjórnin hafi ekki lagt blessun sína yfir þessar skilmálabreytingar eða gefið neinn ádrátt um undanþágur frá gjaldeyrishöftum þeirra vegna, að slík undanþága komi inn á þann samráðsvettvang sem komið hefur verið upp til að fjalla um slíkar undanþágur og að það sé afstaða fjármálaráðherra eins og hæstv. velferðarráðherra að ekki sé hægt að afgreiða einn hluta vandans án þess að hinir hlutar vandans séu undir um leið, þ.e. það þurfi að vera heildarlausn fyrir hendi á uppgjöri föllnu bankanna til að hægt sé að taka þessi skref.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort það sé ekki rétt skilið að hann telji nauðsynlegt að við séum með heildarlausn á borðinu til að afgreiða jafn stórt mál og þetta og eins hvort honum þyki það ekki einkennilegt við fyrstu sýn honum að vaxtakjörin í þessu máli séu lakari en þau voru árið 2009.