143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

áhrif skuldaleiðréttingar á fjárhag sveitarfélaga.

[11:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Við erum ekki að tala um hefðbundið hnoð milli ríkis og sveitarfélaga út af kostnaði við eyðingu minka og refa eða eitthvað slíkt. Við erum að tala um stórfelld áhrif á aðaltekjustofn sveitarfélaganna í landinu sem er útsvarið. Ef sá kostnaður er orðinn hátt á þriðja tug milljarða króna er það miklu stærri atburður í þeim samskiptum en allt hitt sem hæstv. fjármálaráðherra nefndi réttilega að væri uppi í þeim. Ég er fyrst og fremst að spyrja um hvernig verði farið með þetta mál og hvort ekki standi til að gera einhvers konar samkomulag um það eða ganga frá því. Það er með ólíkindum, en kannski eftir öðru, ef m.a. þessi þáttur málsins á að vera fljótandi hérna í gegnum umfjöllun og endanlega afgreiðslu Alþingis á málinu.

Látum vera að sveitarfélögin tækju á sig talsvert í þessari aðgerð ef hún væri skilvirk og þannig útfærð að hún kæmi meðal annars hinum tekjulægstu sem sveitarfélögin bera sérstaklega ábyrgð á til góða, t.d. þeim sem reiða sig á sveitarfélögin um framfærslu sína. En það er nú öðru nær. (Forseti hringir.) Sá hópur er auðvitað algerlega skilinn eftir og fyrir utan þessar (Forseti hringir.) aðgerðir, en sveitarfélögin eiga að blæða miklu inn í (Forseti hringir.) aðgerðir (Forseti hringir.) sem koma fyrst og fremst tekjuhærri hópum landsins til góða. Það er undarleg þolinmæði (Forseti hringir.) sveitarfélaga orðin í garð ríkisvaldsins ef rennur ekki einu sinni í þeim (Forseti hringir.) blóðið núna rétt fyrir (Forseti hringir.) sveitarstjórnarkosningar. Öðruvísi (Forseti hringir.) mér áður brá.

(Forseti (EKG): Forseti vill biðja hv. þingmenn að virða tímamörk.)