143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

áhrif skuldaleiðréttingar á fjárhag sveitarfélaga.

[11:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er auðvitað rangt sem hv. þingmaður heldur hér fram, að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum komi fyrst og fremst þeim tekjuhærri til góða. Það sýna allir útreikningar að svo er ekki. Hins vegar er þetta almenn aðgerð, það er rétt. Hún beinist að þeim sem hafa skuldað húsnæðislán. Hún beinist til dæmis ekki að þeim sem eru skuldlausir vegna verðtryggðra húsnæðislána. Það er önnur umræða.

Svarið við spurningunni er að það hafa engar ákvarðanir verið teknar og það eru engin sérstök áform uppi um að gera samkomulag af þeim toga sem hv. þingmaður spyr um. Í dag verður hins vegar fundur í hinni svonefndu Jónsmessunefnd og það kann vel að vera að málið beri þar á góma, en það hafa engar ákvarðanir verið teknar um að grípa til sérstakra ráðstafana í þágu sveitarfélaganna. Þau hafa aftur á móti notið góðs af ýmsum aðgerðum eins og til dæmis snemmbúinni útgreiðslu séreignarsparnaðar, hafa fengið gríðarlega háar skatttekjur til sín mun fyrr en ella hefði orðið vegna þess að þingið hefur ítrekað (Forseti hringir.) opnað fyrir heimild til að taka út séreignarsparnað. Það hefur komið þeim mjög til góða að undanförnu.