143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

staða sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu.

[11:10]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef í prinsippinu, svo ég svari hv. þingmanni beint, engan áhuga á að gera breytingar á þessu. Það kann þó vel að vera að vegna þeirrar stöðu sem ég hef verið að lýsa neyðist ég til þess að gera það. Ég get upplýst hv. þingmann um að óformlegar viðræður hafa átt sér stað milli aðila sem því miður hafa ekki skilað árangri.

Bilið er það stórt og mikið að það kostar töluverð átök, og þá á öðrum sviðum, að verða við þessum óskum. Ég minni til dæmis á það í umræðunni hér að við höfum þá stöðu uppi í fjárlögum ársins að hafa þurft að skerða fjárframlög til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og þá skýtur það í mínum huga nokkuð skökku við ef við þyrftum að fara að færa hugsanlega fjármuni þaðan úr því málasviði sem heyrir undir mitt ráðuneyti inn í samninga um slökkviliðið. (Forseti hringir.) Þetta er vandinn í hnotskurn sem við stöndum frammi fyrir en á þessu stigi hafa þreifingar og viðræður ekki borið árangur.