143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[11:30]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér greiðum við atkvæði um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árið 2014–2017. Venju og lögum samkvæmt gerum við það. Sem betur fer var allsherjarsamstaða í nefndinni um þessar tillögur.

Eins og sagt var er þetta er stefnumótandi áætlun. Það sem er merkilegt í þeim breytingartillögum sem við nefndarmenn flytjum er tillaga um að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um framgang byggðaáætlunar á miðju tímabili, þ.e. fyrir lok árs 2015. Síðan eru hér afar merkilegar samþykktir um að menntamálaráðherra verði falið að kanna afslátt á námslánum íbúa tiltekinna svæða og einnig verði kannað með uppbætur á barnabætur. Þessu skal skila fyrir 1. október 2015, þ.e. áður en hæstv. forsætisráðherra flytur Alþingi skýrslu um framgang áætlunarinnar. Þetta tel ég mjög mikilvægt skref. Nefndin ákvað að taka þessi tvö atriði upp sérstaklega af þeim sem vitnað var til í áætluninni sjálfri þar sem (Forseti hringir.) leitað var og farið í smiðju nágrannalanda okkar um hvernig menn reka nútímabyggðastefnu. Ég fagna þessu.