143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum.

70. mál
[11:50]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég fagna því mjög að þessi tillaga er hér komin til atkvæðagreiðslu. Fjölmargir foreldrar kjósa eftir sambúðarslit að ala upp börnin sín saman og báðir foreldrar kjósa að hafa ríka umgengni við börnin sín eftir skilnað. Rannsóknir sýna að þannig líður börnum best eftir skilnað.

Hins vegar hefur skort mjög á að lagaumgjörðin, stofnanaumgjörðin og reglugerðirnar styðji foreldrana í þessari viðleitni sinni, það eru fjölmargar hindranir í lagaumhverfinu. Í barnalögum er enn talað um að barn búi bara á einum stað, ekki er opnað fyrir það að barn búi á tveimur stöðum, en þannig er veruleikinn.

Nú stígum við hér stórt skref í að breyta þessu og ég vil hvetja hæstv. innanríkisráðherra og hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra til að taka þetta verkefni alvarlega og smíða á Íslandi lagaumgjörð og stofnanaumgjörð sem fellur að þörfum (Forseti hringir.) barna sem búa á tveimur heimilum og foreldra sem vilja ala börnin sín upp í sameiningu eftir skilnað.