143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

skráning upplýsinga um umgengnisforeldra.

71. mál
[11:52]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég ætla að fagna þessu líka. Hér er mál sem lætur kannski lítið yfir sér og fjallar um það að umgengnisforeldrar séu skráðir í almannaskráningu sem foreldrar. Það er í raun ótrúlegt að umgengnisforeldrar eru ekki skráðir núna sem foreldrar. Það er bara lögheimilisforeldri sem er skráð foreldri og umgengnisforeldrar koma hvergi fram. Þetta skekkir alla ákvarðanatöku okkar hér í þessum sal þegar við fjöllum um málefni fjölskyldna. Það að umgengnisforeldrar séu ekki skráðir foreldrar hefur líka um árabil sent röng skilaboð út til samfélagsins og vinnumarkaðarins. Eftir skilnað er það þá yfirleitt móðirin sem er með lögheimili barnsins og hún er skráð foreldri og kemur fram í skráningu sem einstæð móðir en faðirinn er einhvern veginn skráður eins og hann sé laus allra mála, ekki foreldri lengur.

Þetta er líka skref í jafnréttismálum sem við erum að stíga hér. Og ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að taka þetta föstum tökum og við munum sjá breytingu á almannaskráningu fyrr en seinna.