143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

brottnám líffæra.

34. mál
[12:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil árétta það sem við erum að greiða atkvæði um og það er að halda áfram að vinna að málinu. Mér finnst ofboðslega mikilvægt að það komi fram hér í umræðunni að breytingin sem var lagt upp með hefur ekki þau áhrif sem flestir virðast telja. Þetta er ekki þannig að núna sé það einfaldlega nei. Það er ekki heldur þannig að með upphaflegri tillögu væri það einfaldlega já. Þetta er alltaf í höndum aðstandenda tilvonandi gjafa eða hins látna.

Þessi tillaga ein og sér er kannski þess eðlis að við leggjum allt of mikið upp úr þessari spurningu, eins áhugaverð og mikilvæg og hún er, og því finnst mér mikilvægt þegar við lítum fram á veginn að við einbeitum okkur að markmiðinu sem er að auka líffæragjöf.

Það felst fyrst og fremst í aukinni umræðu, það er reynsla hinna þjóðanna, og upplýsingu og tækifæri einstaklinga til að taka þátt með fullu, upplýstu samþykki.

Ég segi já.