143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

málefni innflytjenda.

517. mál
[12:07]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er frumvarp til laga um eitt atriði í rauninni, sem er að heimila ráðherra að skipa tímabundið forstöðumann Fjölmenningarseturs til loka næsta árs. Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að sérstök lög voru sett um Fjölmenningarsetur sem er staðsett á Ísafirði. Stofnunin er sjálfstæð og gríðarlega lítil, sennilega ein af þeim minnstu í landinu. Nú eru komnar upp hugmyndir um að sameina Fjölmenningarsetur, Jafnréttisstofu og réttindagæslu fatlaðs fólks og leggja þar með niður embætti forstöðumanns hvað þetta varðar.

Mig langar að halda því til haga að ástæðan fyrir því að þetta varð sjálfstæð stofnun á sínum tíma er löng neikvæð reynsla hvað varðar stofnanir sem eru staðsettar úti á landi. Upphaflega eru þær staðsettar á ákveðnum svæðum, en svo þegar menn vilja breyta einhverju eða sameina eru þær meira og minna færðar inn á höfuðborgarsvæðið.

Það hefur verið ágreiningur af hálfu nokkurra aðila varðandi Jafnréttisstofu á Akureyri. Réttindagæslan er um allt land í rauninni, á ýmsum stöðum, vegna þess að unnið er að réttindagæslu á viðkomandi svæðum. Það er engin launung og það kom fram þegar ég flutti málið varðandi Fjölmenningarsetrið að sett voru sérstök lög um það til að tryggja staðsetninguna. Því langar mig að heyra frá hæstv. ráðherra hvaða áform hann hefur varðandi staðsetningu þessara stofnana.

Ég get ekki lagst gegn því að farið sé í sameiningar, raunar hefði maður viljað að skoðað yrði í einu skrefi að stofna mannréttindaskrifstofu sem tæki almennt á mannréttindamálunum og þar með jafnréttismálum, innflytjendamálum og stöðu einstakra hópa eins og varðandi réttindagæsluna hjá fólki með fötlun. Þessi varnarbarátta — við vorum að samþykkja byggðaáætlun áðan — virðist ekki ætla að taka neinn enda. Það er alltaf einhver tilhneiging til þess að hlutirnir eigi að gerast eingöngu á höfuðborgarsvæðinu. Nú veit ég að hæstv. ráðherra er ekki endilega á þeirri skoðun, en það breytir ekki því að ég held að mikilvægt sé að fjalla um þetta mál í því samhengi líka.

Gríðarlega margir jákvæðir hlutir hafa gerst í kringum Jafnréttisstofu vegna þess að hún hefur verið staðsett á Akureyri. Ég geri mér aftur á móti grein fyrir því að það hefur oft verið erfitt fyrir Jafnréttisstofu að sinna hlutverki sínu gagnvart stærstum hluta landsmanna á höfuðborgarsvæðinu, en eins og ég sagði með Fjölmenningarsetrið á sínum tíma þá er kostur að hafa það úti á landsbyggðinni, á landsvæði þar sem er hvað mest og lengst reynsla hvað varðar innflytjendur og starfsmenn erlendra borgara í atvinnulífinu, þ.e. á Vestfjörðum.

Á sínum tíma, þegar Fjölmenningarsetur var sett á fót á Ísafirði, kom upp hugmynd um að stofna menningarsetur eða fjölmenningarhús í Reykjavík sem átti að þjóna Reykjavík. Hættan við að ríkið setji slíka stofnun á laggirnar er að sveitarfélögin bakki út úr því verkefni að sinna innflytjendum til jafns við alla aðra íbúa þessa lands. Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli að menn átti sig á því að hlutverk ríkisins hvað varðar innflytjendur eða fjölmenningarsetur er ekki að leysa þau verkefni sem snúa sérstaklega að hverjum íbúa og þjónustunni hjá hverju sveitarfélagi. Það verður hvert einasta sveitarfélag að gera til jafns við íbúa sem eru af erlendu bergi brotnir. Öll sú þjónusta á að vera til jafns við aðra íbúa í viðkomandi sveitarfélagi. Sveitarfélög mega aldrei fá fjarvistarheimild frá því daglega verkefni sem þeir hafa gagnvart þessum hópi til jafns við aðra.

Það hefur að mörgu leyti verið gott að hafa Fjölmenningarsetur annars staðar. Það hefur þá getað einbeitt sér að því að vera með ákveðnar þýðingar, ákveðnar túlkunarþjónustu, milligöngu um slíka starfsemi, stefnumótun fyrir ríkið í þessum málaflokki og getur einbeitt sér að stóru heildinni í staðinn fyrir að þjónusta einn og einn einstakling sem þarf þjónustu viðkomandi sveitarfélag á að veita.

Erindi mitt í ræðustól er fyrst og fremst það að ég mun ekki leggjast gegn þessu frumvarpi. Þarna er um að ræða tímabundna ráðningu, annars hefði ráðningin ekki framlengst eða starfið hefði verið auglýst til fimm ára eins og hjá forstöðumönnum annarra stofnana.

Ég óska eftir því að í nefndinni verði gerð grein fyrir því hvernig menn hafa hugsað þessa starfsemi, hvort hún verði á þremur stöðum í framhaldinu, með einum forstöðumanni eða hvort hugmyndin er að finna þessu stað annars staðar. Hvernig verður hugmyndin hvað varðar staðsetningu landsbyggð/höfuðborg o.s.frv.? Hvað sem manni annars finnst um það þá getur tilhneigingin að draga allt inn á höfuðborgarsvæðið haft sína kosti en hefur líka neikvæðar afleiðingar og það er dýrt að vera svo endalaust að finna einhver úrræði til þess að hindra neikvæða byggðaþróun í landinu.

Við vorum t.d. hér áðan að samþykkja eftir 2. umr. lög um lögregluembætti og sýslumannsembætti. Varðandi sýslumannsembættin setti hv. allsherjar- og menntamálanefnd inn sérstakt ákvæði þar sem ætlast er til að forsætisráðuneytið beiti sér fyrir því að öll ráðuneyti geri aðgerðaáætlun til að tryggja hvernig hægt er að færa verkefni til sýsluskrifstofa, þar sem skrifstofurnar verða áfram en sýslumennirnir missa hlutverk sitt. Hér erum við að ræða um hluti sem geta jafnvel tengst þessum opinberu stofnunum úti á landi og það væri úr takti ef við færðum þessa stofnun inn á höfuðborgarsvæðið á sama tíma og færa á með handafli önnur verkefni út til sýslumannsembættanna.

Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra kemur í umræðuna aftur en það væri gaman að heyra sjónarmið hennar strax, eða þá alla vega við málsmeðferð velferðarnefndar.