143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

málefni innflytjenda.

517. mál
[12:14]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Í örstuttri ræðu ætla ég að lýsa viðhorfum mínum til þessa máls. Í fyrsta lagi tel ég að Fjölmenningarsetrið hafi sannarlega staðið undir nafni og unnið gott verk á liðnum árum. Í öðru lagi tel ég að það hafi verið vel til fundið að finna því stað á Ísafirði, í því kjördæmi þar sem hæst hlutfall innflytjenda er. Í þriðja lagi verð ég að segja að mér finnst það vera töluverð ráðherrafrekja af hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra að koma hingað með frumvarp af þessu tagi sem gengur út á það að við á Alþingi Íslendinga munum samþykkja tiltekna tilhögun sem hún hefur í hyggju að hrinda í framkvæmd. Nú tek ég það alveg skýrt fram að það kann vel að vera að þau áform séu vitleg og skynsamleg, en ég veit ekkert um það. Það kann að vera að þessar áætlanir hafi verið kynntar fyrir hv. velferðarnefnd, en þær hafa að sönnu ekki verið kynntar fyrir þinginu og alls ekki fyrir mér sem þingmanni sem situr hérna. Þess vegna kýs ég að varðveita þau forréttindi að móta mér skoðun á málinu þegar það verður lagt fyrir þingið. En af því leiðir hins vegar að mér er eiginlega ómögulegt að taka við óútfylltum tékka eins og þessum, sem felst í tillögu um að skipa forstöðumann til tiltekins tíma, þ.e. út næsta ár, af því að þá ætlar hæstv. ráðherra að vera búin að koma málinu í gegnum þingið. Hún hefur ekki hugmynd um hver verða viðbrögð þingsins.

Ég tel ekkert sjálfgefið í þessu máli. Ég er ekki einu sinni viss um að rétt sé að fara þessa leið, en ég tek viljann fyrir verkið og er reiðubúinn til þess að skoða það, en ég er ekki reiðubúinn til þess að styðja tillögu af þessu tagi. Þess vegna, öfugt við það sem hv. þingmaður og félagi minn, Guðbjartur Hannesson, sagði áðan, er ég ekki einu sinni reiðubúinn til þess að gefa yfirlýsingu um það núna að ég muni sitja hjá. Ég tel einfaldlega að þetta sé ekki góð stjórnsýsla.