143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

málefni innflytjenda.

517. mál
[12:43]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna yfirlýsingum hæstv. ráðherra, að það sé ekki markmiðið að færa starfsmenn til á milli landshluta í tengslum við þetta mál. Hæstv. ráðherra rifjar líka upp stefnumál ríkisstjórnarinnar um að gæta starfa á landsbyggðinni og heitir stuðningi við þau áform heils hugar. Það er rétt, sem hæstv. ráðherra segir, að mismunatilskipunin er gríðarlega stórt plagg sem þarf að fara í gegn og mun bæta réttarstöðu fólks á Íslandi, Evróputilskipun sem þarf að koma hér til framkvæmda. Og ég geri mér líka fulla grein fyrir því að hér er um að ræða bráðabirgðaákvæði sem verið er að framlengja.

Það sem ég hafði ekki tekið eftir — þess vegna hafði ég sagt strax, sagði það í ræðu minni hér í byrjun, að ég mundi ekki leggjast gegn því að þetta yrði framlengt á meðan menn væru að skoða málið betur. En þegar maður fer að lesa betur athugasemdir við lagafrumvarpið þá stendur skýrt að í velferðarráðuneytinu sé unnið að frumvarpi til laga um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála þar sem gert sé ráð fyrir sameiningu Fjölmenningarseturs, Jafnréttisstofu og réttindagæslu. Það finnst mér í sjálfu sér vera að taka tvö skref í einu ef nefnd, sem á að fjalla um dagsetningu varðandi ráðningu forstöðumanns, meðan verið sé að skoða einhver ákveðin mál, að það sé nánast tekið fram hvaða niðurstaða eigi þar að koma. Ég tel að það sé ekki ásættanlegt en auðvitað, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson benti á, er hægt að hugsa sér að velferðarnefnd afgreiði málið með því að breyta þeim texta sem er í athugasemdunum og fallast á að ráðningartíminn verði lengdur um eitt ár og taka síðan fram að allt hitt eigi eftir að skoða. Það krefst miklu vandaðri vinnu en felst í að setja hér samþykkt um að hér eigi að fara að vinna að lagafrumvarpi.