143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:35]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi leigjendurna sem munu geta nýtt sér séreignarsparnaðarúrræðið er mín upplifun sú að við séum með einhverju móti að þröngva fólki sem er á leigumarkaði og mundi hugsanlega vilja vera áfram á leigumarkaði í séreignarúrræðið. Það er það sem ég hef áhyggjur af. Ég hefði viljað, fyrst við erum á annað borð að fara út í þetta, að leigjendur gætu nýtt sér þetta sparnaðarform og notað það til að borga kannski tryggingagjald eða til að niðurgreiða leiguna næstu árin. Eins og ég skil ríkisstjórnina viljum við hafa fjölbreytni á markaði þannig að við viljum hafa leigjendur og séreignarúrræði, en mér finnst eins og með þessu séum við enn og aftur að þröngva öllum inn í séreignarúrræðið rétt eins og við gerðum með 90% lánin. Fólk keypti sér jafnvel fasteign þótt það hefði ekki efni á því og það væri kannski betra að vera á góðum og skilvirkum leigumarkaði.

Gott væri ef hv. þingmaður vildi svara (Forseti hringir.) spurningunni varðandi leigjendurna.