143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir andsvar og spurningar.

Já, við deilum þeirri skoðun að þetta sé jákvætt skref. Ég er almennt alltaf hlynntur því að hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft. Það er mjög freistandi að nýta séreignarsparnaðinn á marga vegu og það hefur oft komið upp í pólitískri umræðu í gegnum tíðina að nýta séreignarsparnað.

Það var mikil umfjöllun í nefndinni um hópana en ég kom jafnframt inn á það í nefndarálitinu og ítreka að þetta er almenn aðgerð fyrir þann hóp sem hún beinist að. Alveg frá því að þingsályktunartillagan var lögð fram í júní fyrir ári hefur hún beinst að húsnæðisskuldurum verðtryggðra húsnæðislána, en við í nefndinni fórum mjög vel yfir alla þá hópa sem gætu mögulega nýtt sér úrræðin. Vissulega eru þarna hópar, eins og fram kom í framsögu minni, sem geta nýtt sér séreignarsparnaðarúrræðið eins og húsnæðissamvinnufélögin þegar kemur að búseturéttinum og þeir geta auðvitað nýtt sér seinna úrræðið sem er húsnæðissparnaðarúrræðið.

Varðandi lífeyrisþega þá eru vissulega lífeyrisþegar sem hafa safnað lífeyrissparnaði hingað til, en það bar að gæta jafnræðis gagnvart þeim sem hafa þegar tekið út lífeyrissparnað sinn og greitt af honum skatt að fullu.