143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:42]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þá vitum við það. Þetta er almenn aðgerð fyrir sértækan hóp í samfélaginu. Það er í raun og veru það sem hv. þingmaður sagði. (Gripið fram í: Rangt …) Það er eitthvað að hjá hv. þingmanni Guðlaugi Þór Þórðarsyni, honum líður bersýnilega ekki vel með þetta. (GÞÞ: Þetta er ekki sanngjarnt.) Hv. þingmaður verður að eiga það við sjálfan sig. Ég er alltaf sanngjarn eins og þingmaðurinn veit.

Eftir sem áður liggur fyrir að stórir hópar geta ekki nýtt sér þessi úrræði. Meiri hlutinn bendir á það í nefndaráliti sínu að frumvarpið eigi rætur að rekja til ályktunar Alþingis frá 28. júní 2013. Ég fæ ekki skilið hv. þingmann öðruvísi en að hann sé í raun að segja að þeir hópar sem þetta frumvarp nær ekki til verði bara að bíða eftir einhverjum öðrum úrræðum á grundvelli þeirrar þingsályktunar. Er það þannig sem málið er hugsað af hálfu meiri hlutans, á það að koma einhvern tímann seinna?

Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að komið verði til móts (Forseti hringir.) við þá hópa sem ekki geta nýtt sér þau úrræði sem hér er fjallað um?