143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst til að svara hv. þingmanni, um ummæli mín í þá veru að séreignarlífeyrissparnaðarkerfið væri til að létta á almannatryggingakerfinu og auðvitað hinu almenna lífeyriskerfi, þá vísa ég honum á umsögn Alþýðusambands Íslands um það mál. Hún fjallar ágætlega um það samhengi, hvernig umgjörðin í kringum séreignarsparnað var umsamin milli aðila vinnumarkaðarins og þá sýn aðila vinnumarkaðarins og verkalýðshreyfingarinnar, almennu verkalýðshreyfingarinnar sérstaklega, að þetta væri til að auðvelda fólki á almennum vinnumarkaði að flýta starfslokum, til að styðja sérstaklega við það fólk og koma til viðbótar bæði almannatryggingakerfinu og hinu almenna lífeyriskerfi.

Varðandi spurningu hv. þingmanns vil ég bara benda á að ég er stuðningsmaður þrepaskipts skattkerfis. Það er þar sem við mætum, í útgreiðslum lífeyrisins, jafnræðissjónarmiðunum til fulls. Það sem hér er um að ræða er sérstök aðgerð sem felur í sér skattfrjálsa söfnun séreignarlífeyrissparnaðar með inngreiðslu inn á lán beint. Það er líka ljóst, af því sem ég hef hér rakið, að sú aðgerð mun ekkert nýtast stórum hópum. Þegar við bætist hinn hluti aðgerðarinnar, hin mikla skuldaniðurfærsla, sem varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur hvatt sómakæra þingmenn Sjálfstæðisflokksins til að samþykkja ekki undir nokkrum kringumstæðum, þá er ljóst, þegar þessar aðgerðir eru lagðar saman, að lágtekjufólk, leigjendur, námsmenn, lífeyrisþegar, munu betra skarðan hlut frá borði. Hér er gríðarleg millifærsluaðgerð sem fyrst og fremst mun henta þeim (Forseti hringir.) sem meira hafa milli handanna.