143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi umsögn Alþýðusambandsins liggur fyrir að útgreiðsla er löngu áður en lífeyrisgreiðslur hefjast úr almannatryggingum, en við getum rætt það seinna.

Enn og aftur, af því að ég spurði í andsvörum þegar við byrjuðum að ræða þetta og aftur hér, spyr ég hv. þingmann sömu spurningarinnar. Nota má nákvæmlega sömu rök — námsmenn sem eru lágtekjufólk, öryrkjar, þeir eru ekkert að greiða viðbótarlífeyrissparnað, þar af leiðandi fá þeir ekki skattafsláttinn, fjármagnstekjuafsláttinn.

Ég spyr hv. þingmann: Er hann þá ekki á móti því að það sé skattfrelsi með viðbótarlífeyrissparnaði? Nú er ég að spyrja hv. þingmann í fjórða skiptið vegna þess að ef við hlustum á rök hans getum við ekki komist að annarri niðurstöðu, ef hann vill vera sjálfum sér samkvæmur, en þeirri að hann sé á móti því að (Forseti hringir.) verið sé, eins og hann notar þau orð, að hygla þeim sem best hafa það með því að vera ekki með fjármagnstekjuskatt á séreignarlífeyrissparnað og (Forseti hringir.) lífeyrissparnað.