143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vont þegar hv. þingmaður vill ekki heyra það sem maður segir í andsvari. Ég sagði hér mjög skýrt áðan að ég styddi það að ekki væri lagður fjármagnstekjuskattur á lífeyrissjóði og að jafnræðissjónarmiðum væri mætt með því að leggja fjölþrepatekjuskatt á útgreiðslu lífeyrisins.

Það sem ég er ósáttur við í þessu tiltekna frumvarpi er að verið sé að verja skattfé til þess að greiða fyrir því að þeir sem hvort eð er geta lagt fyrir geri það. Mér þykir það ekki skynsamleg ráðstöfun á almannafé. Auðvitað er fullt af samflokksmönnum hv. þingmanns sama sinnis og hafa verulegar efasemdir um réttmæti þeirrar aðgerðar sem hér er verið að ráðast í og að þetta skuldleiðréttingarbix allt saman muni auka á misrétti og feli ekki í sér rökrétta ráðstöfun almannafjár.