143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:26]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir flutning hans og reifun á nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Í framsögu sinni minntist hv. þingmaður á að það væri slæmt að taka út úr séreignarkerfinu 74 milljarða til útgreiðslu. Það er rétt, það er að sjálfsögðu ekki gott, en af því virtust lífeyrissjóðirnir ekki hafa miklar áhyggjur. Þeim fannst þetta vera hvati til sparnaðar þó að þetta mundi ekki renna beint inn í sjóðina því að mjög margir mundu fara í þann farveg að velja séreignarsparnað. Þetta væri tímabundin og hófleg aðgerð og þegar tímanum lyki væru kannski komnir tugir þúsunda nýrra viðskiptavina inn í séreignarsparnaðarkerfið og eftir það mundi fjölga þeim sem leggja í séreignarsparnað.

Því var ekki til að dreifa á fyrra kjörtímabili. Þá voru teknir út 93 milljarðar, ekki til sparnaðar eða til lækkunar á skuldum heldur bara til þess að taka út og hafa í sig og á. Það var enginn hvati til þess að ganga inn í kerfið. Þá var verið að taka út séreignarsparnað sem var búið að leggja inn, en í þessum tillögum er ekki verið að leggja til að eitthvað verði tekið út heldur að ekki verið lagt inn, það er munurinn.

Hefði ekki verið klókt að byrja á þessu prógrammi á síðasta kjörtímabili frekar en að byrja núna? Er þetta ekki betri leið?

Einnig vildi ég aðeins spyrja út í það sem stendur í nefndarálitinu, að málið hafi verið vanreifað. Ég vil nota tækifærið til þess að spyrja hvort honum finnist ekki að rúmur umsagnarfrestur hafi verið gefinn og tekið á móti mörgum gestum. Það komu 43 gestir, gefnar voru að mig minnir tvær eða þrjár vikur til umsagna. Það voru haldnir tíu fundir um málið í efnahags- og viðskiptanefnd og við fengum fjölda minnisblaða frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. Að vísu var ekki hægt að bregðast við þeim fyrirspurnum sem komu á allra síðasta degi en ég held að það sé mjög (Forseti hringir.) langt seilst að segja að málið hafi verið vanreifað.