143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Aðeins vegna orðaskipta áður um almennar aðgerðir og ekki almennar: Veruleikinn er sá að stærsta almenna aðgerðin sem farið var í á síðasta kjörtímabili var umtalsverð hækkun vaxtabóta og síðan tilkoma sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu. Miklir fjármunir voru settir í það ár eftir ár að aðstoða skuldug heimili vegna húsnæðiskostnaðar og sérstaka vaxtaniðurgreiðslan var þannig útfærð að hún var mjög almenn, enda fengu milli 70 og 80 þúsund heimili greiðslur, niðurgreiðslur vaxtakostnaðar á árunum 2011 og 2012, umtalsverðar fjárhæðir og eingöngu efnuðustu fjölskyldurnar urðu af þeim greiðslum þar sem greiðslan var tengd við tiltölulega há nettómörk hreinna eigna. Þessar ráðstafanir munu ekki ná því að verða jafn almennar og vantar mikið upp á, eins og ég mun kannski koma betur inn á hér á eftir og þó ekki síður þegar við ræðum síðar í vikunni höfuðstólslækkunarfrumvarpið.

Ég stend að þessu nefndaráliti ásamt með framsögumanni, hv. þm. Árna Páli Árnasyni, sem þegar hefur mælt fyrir því og Guðmundi Steingrímssyni, enda kom í ljós að afstaða okkar til þessa máls sem slíks var mjög svipuð. Það eru í því jákvæðir þættir eða þættir sem að mínu mati hefði vel mátt vinna með, sem er hugmyndin um að aðstoða fólk sem ekki á húsnæði í dag en hyggur á slíkt í framtíðinni með einhverjum hætti til að byggja upp sparnað og mynda höfuðstól, sem er bráðnauðsynlegur þeim sem ætla að ráða við ástandið á fasteignamarkaði í dag. Það ræðir varla um það að ungt fólk geti keypt sína fyrstu íbúð nema það eigi 4–5 milljónir hið minnsta í fé, í fjármunum inni á bankabók, til þess að standast greiðslumat og geta borgað það sem á vantar að lánastofnanir láni fyrir íbúðarkaupum sem almennt er ekki hærra en 80% í dag.

Sá hluti þessa máls, b-hluti frumvarpsins, er að mörgu leyti skásta framlag ríkisstjórnarinnar inn í þetta samhengi núna og sá sem maður hefði verið tilbúinn til þess að vinna að skynsamlegri útfærslu á. Á því eru að sjálfsögðu ágallar sem tengjast eðli þessara mála, svo sem eins og þeir að það nýtist þá eingöngu þeim sem eru á vinnumarkaði og í þeim mun ríkari mæli sem menn hafa hærri laun upp að því þaki sem þarna er sett.

Í raun er hér alveg um tvískipt mál að ræða og verður að ræðast og meðhöndlast sem slíkt. Það er annars vegar höfuðstólslækkunarhlutinn í gegnum séreignarsparnaðarleiðina og hins vegar þetta með sparnaðinn.

Vandi þessa máls eru þó stórkostlegir ágallar sem á því eru og ekki hefur það batnað í meðförum nefndarinnar nema að litlu leyti hvað varðar einhver fáein tæknileg atriði, því að nefndin tók sig til, meiri hluti nefndarinnar, á síðasta fundi sem um þetta var fjallað, á sama fundi og málið var tekið út, og boðaði umtalsverða breytingu á stærðargráðu málsins, tók sig bara til sisvona og stækkaði það umtalsvert, þar með talið þau ójafnaðaráhrif sem það hefur og þar með talið kostnaðinn fyrir ríki og sveitarfélög.

Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að það liggur í hlutarins eðli að þetta nýtist mönnum þeim mun betur sem þeir hafa hærri tekjur og skattameðgjöfin vex í réttu hlutfalli við það. Það er það sem menn virðast ekki hafa áttað sig á, að við erum með prógressífan skatt, tekjuskatt, en hann snýst við í tilvikum sem þessum og verðlaunar menn sérstaklega eftir því sem laun þeirra eru hærri. Það gerir hins vegar hinn venjulegi tekjuskattur ekki, það er öfugt. Þá leggjast hærri prósentur á laun sem fara upp fyrir tiltekin mörk. Ég held því að menn þurfi aðeins að rifja upp þekkingu sína í skattarétti áður en þeir tala eins og að þetta sé eitthvert náttúrulögmál sem sé sisvona, alltaf, á báðar hliðar. Það er aldeilis ekki þannig. Það er enginn vandi að útfæra ráðstafanir af þessu tagi sem ekki væru með þetta „element“ inni eða, sem væri auðvitað langbest, glíma við að koma upp einhverju almennu húsnæðissparnaðarfyrirkomulagi sem ekki gerði greinarmun á þeim sem væru á vinnumarkaði og öðrum og ekki hefði í sér innbyggða mismunun sem þýddi aukinn stuðning ríkis og sveitarfélaga eftir því sem tekjur manna hækka, en það gerir þetta mál.

Það er auðvitað stórkostlegur ágalli á þessu sem og pakkanum hjá ríkisstjórn í heild að mjög fjölmennir hópar liggja óbættir hjá garði. Það kemur betur og betur í ljós eftir því sem þetta er meira skoðað. Við erum enn, því miður, frú forseti, fórnarlömb þessarar yfirborðskenndu umræðu, þeirrar afbökunar sem átti sér stað í aðdraganda síðustu alþingiskosninga, að þetta væru heimilin í landinu. Það var talað um heimilin í landinu og í sinni nöktustu mynd: Hverjir standa með heimilunum og hverjir ekki? Og það voru víst aðeins framsóknarmenn sem vildu standa með heimilunum í landinu. En eru þetta öll heimilin í landinu? (FSigurj: 100 þúsund.)Fyrir það fyrsta, hv. frammíkallandi, Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, þá verða það engin 100 þúsund sem í heild sinni munu taka þátt í þessum aðgerðum, það liggur alveg fyrir. Og það er fljótlegt að sýna fram á að svo er ekki.

Það leiðir af því að til dæmis öryrkjar munu almennt ekki taka þátt í þessu úrræði. Fólk sem er í félagslegu leiguhúsnæði, húsnæðisamvinnufélög, búseturéttarfélög, þeir sem búa í félagsbústöðum o.s.frv. eru utan við úrræðin og komast ekki inn í þau. Þeirra lán eiga ekki að lækka og þeir hafa engin færi á því að nota séreignarsparnað sinn til að bæta stöðu sína vegna þess að kerfið býður ekki upp á það. Námsmenn verða ekki með í því og upp undir sá fjórðungur landsmanna sem hefur af þrautseigju borgað upp skuldirnar af húsnæði sínu verður ekki með, ekki einu sinni fólk sem er að detta inn á eftirlaunaaldur akkúrat núna, á uppsafnaðan séreignarsparnað og skuldar í húsnæði. Samtök aldraðra komu og báðu um að sá hópur fengi þó að minnsta kosti að einhverju leyti að vera þarna með, en því var hafnað.

Því er borið við að ekkert af slíku tagi sé hægt að gera vegna þess að það fæli í sér mismunun gagnvart þeim sem búnir eru að taka út séreignarsparnað sinn og borguðu eðli málsins samkvæmt af honum fulla skatta. En við erum ekki að tala um það umhverfi hér. Við erum að tala um að létta sköttum af séreignarsparnaði, sem er alveg nýtt. Hann hefur alltaf og ætíð verið skattandlag þegar hann er greiddur út, fram að þessu. Jafnræðið snýst um að bera það saman við það sem á að verða en ekki það sem er að baki. Það er hægt að snúa jafnræðisreglunni á báða vegu þannig að ég vara stjórnarliða við að fara of langt út á þessa braut. Það koma nefnilega upp tvær hliðar á misvæginu við það.

Kostnaðurinn sem af þessu hlýst verður gríðarlega mikill fyrir ríki og sveitarfélög. Þessi hluti málsins, séreignarsparnaðarhlutinn, stefnir í að enda sem ef ekki jafn hár þá jafnvel hærri hluti reikningsins og sjálf höfuðstólsniðurfærslan með beinum framlögum úr ríkissjóði upp á 20 milljarða í fjögur ár eða 80 milljarða. Það er einfaldlega vegna þess að mönnum láðist í greiningum sínum á kostnaðinum, þar með talið í greinargerð frumvarpsins, að gera ráð fyrir þeirri augljósu staðreynd að almennt ávaxtast inngreiðslur í lífeyriskerfið og inn í séreignarsparnaðarkerfið líka, og þegar þær koma til útgreiðslu eru 30–40% af fjárhæðinni ávöxtun og ríki og sveitarfélög fá fulla skatta af fjármagnstekjuhlutanum eins og inngreiðsluhlutanum í byrjun, enda lögðu þau skattfrelsið af mörkum til ávöxtunar þessa fjár. Og það má færa fyrir því ágæt rök að þetta sé hið eðlilega fyrirkomulag, þó að vissulega hafi aðrir bent á að það mætti líka færa fyrir því rök að hluti útgreiðslna úr lífeyriskerfinu ætti þar af leiðandi að bera fjármagnstekjuskatt en ekki launaskatt.

Þá leið höfum við ekki valið, Íslendingum, sem betur fer, segi ég, fyrir ríki og sveitarfélög sem mun ekki veita af vaxandi tekjum úr lífeyriskerfinu þegar aldurssamsetning þjóðarinnar breytist, fleiri verða á eftirlaunaaldri og þörfin fyrir þjónustu til þess hóps verður dýrari og meiri.

Það tókst að draga út úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu útreikninga á því hvað þetta þýddi í raun og veru að teknu tilliti til líklegrar ávöxtunar á fénu, sem ella hefði með hefðbundnum hætti verið greitt inn í séreignarsparnaðinn, og þá stækka tölurnar að miklum mun. Ég tók að vísu eftir því að framsögumaður reyndi lítið að glíma við að taka þær tölur með í reikninginn þegar hann var að fjalla um kostnað. En við erum með minnisblað, greinargerð frá fjármálaráðuneytinu þar sem glímt er við þetta og ein tiltekin sviðsmynd, sú sem við skulum segja að séu ytri mörkin í þessu, þýðir að tapaðar skatttekjur ríkisins á næstu þremur árum og til framtíðar á næstu áratugum að teknu tilliti til líklegrar ávöxtunar sem ráðuneytið valdi að hafa 3,5%, viðmiðunarmörkin hjá lífeyrissjóðunum, verða 43,2 milljarðar kr. — þetta er áður en meiri hlutinn stækkaði aðgerðina — og sveitarfélögin, með sömu reikningsaðferðum, tæplega 21 milljarðar. Þetta er ekki einhver skáldskapur frá mér, þetta er hér á blaði, frú forseti. Það merkilega er reyndar að þetta eru nokkurn veginn sömu tölur og ég flutti mönnum í 1. umr. um málið, hafandi reiknað það út á hnjánum úti í salnum, enda ekkert óskaplega flókið mál. Það er tiltölulega einfalt að gefa sér almennar varfærnar forsendur og þá færðu út svona niðurstöðu.

Þarna er sem sagt framlag frá ríki og sveitarfélögum inn í þessa séreignarsparnaðaraðgerð upp á um 64 milljarða kr, áður en aðgerðin var stækkuð. Hverjir borga þetta? Verða það hrægammar, eru það hrægammar? Nei, ekki nema ef menn ætla að kalla börnin okkar og barnabörnin hrægamma, því að þetta er reikningur sem er sendur inn í framtíðina eins og hann leggur sig. Hann fellur til í töpuðum tekjum á næstu þremur árum og síðan á næstu 30–40 árum. Var ekki verið að segja okkur og þjóðinni fyrir kosningar að þetta kæmi alveg gratís frá útlöndum, frá vondum hrægömmum? Hver er orðin niðurstaðan? Hver einasta króna sem fer í þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar kemur frá ríki og sveitarfélögum. Og þó að menn hafi hækkað bankaskatt til að kosta að einhverju leyti höfuðstólsniðurfærsluna eru það tekjur í ríkissjóði eins og hverjar aðrar skatttekjur. Þannig eru nú efndirnar á loforðinu sem var logið að þjóðinni, að hægt væri að færa niður allar skuldir landsmanna, bara yfir línuna, um stórfelldar fjárhæðir, 240–300 milljarða án þess að þess sæi nokkurs staðar stað. Það er nú öðru nær.

Hér er um að ræða gríðarlega tilfærslu fjármuna frá skattgreiðendum komandi ára og áratuga til nútímans. Jú, vissulega mun það víða koma sér vel og margir munu fá tiltekna úrlausn sem eru vel að því komnir en það fá líka mjög margir mikið sem ekki þurfa sérstaklega á því að halda og eru miklu, miklu betur staddir en hóparnir sem á að skilja eftir, sem eru leigjendur, sem er hluti aldraðra og öyrkja, sem eru þess vegna námsmenn eða börnin okkar, því að hvað vitum við um hvernig kjör þeirra verða hér eftir 10 eða 20 ár, sem taka við hverju? Þriðja, fjórða skuldsettasta ríkissjóði í Evrópu eftir hrunið. Þau verða að bíta úr nálinni með það og svo mörgum af þeim váboðum sem eru við sjóndeildarhring, ekki aðeins fyrir Íslendinga heldur mannkynið allt, loftslagsbreytingar og annað fleira.

Þetta er auðvitað ábyrgðarlaust. Það er ábyrgðarlaust gagnvart komandi kynslóðum að standa svona að málum. Að minnsta kosti væri þá lágmark að við værum sammála um að aðgerðin væri vel grunduð og félagslega réttlætanleg og hver einasta króna sem þarna færi út og kæmi í hlut barnanna okkar og barnabarna að borga, hennar væri sár og brýn þörf í núinu. En verður það þannig? Nei.

Þegar búið er að hækka fjárhæðarmörkin, samkvæmt breytingartillögu meiri hlutans á báðum hliðum málsins í a- og b-hluta frumvarpsins, í 2.250 þúsund samtals, sem menn geta þá lækkað höfuðstól sinn um eða byggt upp húsnæðissparnað með upp undir 40% meðgjöf frá ríki og sveitarfélögum í formi skattfrelsis, ja, þá eru ríki og sveitarfélög beint að leggja inn í þetta púkk upp undir milljón króna, og fólk með tekjur um og yfir milljón á mánuði, fjölskyldutekjur um og yfir milljón á mánuði nær þá nokkurn veginn að nýta sér þetta skattfrelsi til fulls. Það er því búið að ýkja það eðli þessarar aðgerðar að hún gagnist mönnum betur eftir því sem tekjur þeirra eru hærri. Þetta er bara veruleikinn, hann er eins og hann er. Það þýðir ekkert að segja draugasögur af honum í myrkri. Menn munu átta sig á því hvernig eðli aðgerðanna er þegar það fer að sjá í gegnum áróðursþokuna sem sveiflað hefur verið upp í kringum þetta.

Hefðu menn glímt við það að útfæra skynsamlegar tillögur um húsnæðissparnað hefði ég talið vel réttlætanlegt að ríki og þess vegna sveitarfélög legðu sitt af mörkum til þess að svo gæti orðið. Það er hægt að fara ýmsar leiðir í þeim efnum, m.a. þær að aðstoða þá tekjulægstu sérstaklega til þess að vera þátttakendur í slíku þannig að menn standi jafnt að vígi, en það er nú aldeilis ekki gert, aldeilis ekki, eins og ég fór yfir áðan. Þetta finnst mér að menn verði að svara fyrir í þessu máli og geti ekki skautað algjörlega fram hjá.

Varðandi ráðstöfun séreignarsparnaðarins að þessu leyti hefur réttilega verið á það bent að hér er um að ræða lögvarða eign, hún er ekki aðfararhæf. Þetta eiga menn hvað sem á dynur í þeirra fjármálum og þar af leiðandi er það auðvitað umhugsunarefni þegar menn segja að hérna sé aðeins verið að breyta um sparnaðarform og færa úr séreignarsparnaði yfir í eign í fasteign. Já, en það gerist meira í leiðinni, þar á meðal það að þessi fjárfesting eða eign manna verður miklu verr varin og það verður að hugleiða. En gulrótin er auðvitað svo feit sem veifað er með skattfrelsinu að það er mjög líklegt að menn freistist til þess að taka áhættu.

Það var engu slíku til að dreifa í þeim takmörkuðu útgreiðsluheimildum á séreignarsparnaði sem gripið var til á síðasta kjörtímabili og menn eru almennt sammála um að tókust vel, enda reyndist eftirspurnin eftir þeim úrræðum mikil. Ríki og sveitarfélög fengu fulla skatta af hverri einustu krónu sem þar var greidd út út og þær tekjur komu sér vel fyrir ríki og sveitarfélög á erfiðasta tímanum. Þetta var valfrjáls ákvörðun hvers og eins og á henni voru þök.

Ég vil nefna greiðslujöfnunarreikningana aftur vegna þess að ég hef ekki keypt rökin fyrir því, a.m.k. ekki í tilviki séreignarsparnaðarhöfuðstólsniðurgreiðslunnar, að það eigi að gera upp greiðslujafnaðarreikningana fyrst þar. Þá vísa ég aftur til eðlis þess að hér er fólk að nota séreignarsparnað sinn, lögvarða og óaðfararhæfa eign sína. Af hverju á að gera upp við fjármálastofnanirnar fyrst, greiðslujöfnunarreikningana, með slíku fé? Látum vera að það væri hinum megin í höfuðstólslækkunarfrumvarpi með peningum beint úr ríkissjóði, en þegar fólk er að nota eigin séreignarsparnað, samanber eðli hans, þá finnst mér það býsna langt gengið.

Það liggja 17 milljarðar kr. á þessum greiðslujöfnunarreikningum. Það fer nú dálítið af fyrstu umferð þessara aðgerða í að byrja á því að gera það upp að fullu við banka, Íbúðalánajsóð, lífeyrisjóði og aðra sem að mínu mati gætu, ef fólk svo vildi, vel geymt þá reikninga og svo sæju menn til hvernig gengur með þá. Menn segja: Já, það er að snúast við, greiðslujöfnunarvísitalan er að fara fram úr lánskjaravísitölunni eða neysluverðsvístölunni. Já, en það er ekki víst að það verði lengi. Það hefur gerst áður á Íslandi að þetta snúist svo við aftur og við erum væntanlega að tala um að við ætlum að hafa greiðslujöfnun við lýði sem frambúðarúrræði, eins og flest lönd voru búin að taka upp á undan okkur. Þá gæti verið ágætt að vera ekki búinn að borga upp mínusinn á greiðslujöfnunarreikningnum ef reglurnar héldust óbreyttar, að einungis þrjú ár bættust við lánstímann og svo væru eftirstöðvarnar á þeim reikningi afskrifaðar. Sá möguleiki hverfur þarna fyrir borð og það er mikið áhyggjuefni.

Efnahagsleg áhrif og fjármálaleg áhrif þessara aðgerða hafa auðvitað fengið allt of litla athygli. Ég mun fara betur yfir það í umræðum um höfuðstólslækkunarfrumvarpið. En mér finnst alveg stórfurðulegt að menn skuli ætla að leggja í þessa aðgerð í heild sinni án þess að á einum stað séu saman tekin öll ríkisfjármála- og efnahagsáhrif og lagt á þau mat af þar til bærum aðilum. Það er hvergi gert, ekki í nefndarálitum meiri hlutans, ekki í greinargerðum með frumvarpinu, heldur er passað að fjalla um þetta sitt á hvað og nú hefur komið í ljós að menn vanmátu kostnaðinn stórkostlega. Það hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið viðurkennt með nýjum minnisblöðum til nefndarinnar, og mátti að sjálfsögðu gera því að auðvitað vorum við ekki svo græn öll sem þar sitjum að við létum bjóða okkur reikningskúnstir af því tagi sem færðar voru fram í greinargerð frumvarpsins, að það væri hoft fram hjá áherslum fjárins inni í séreignarsparnaðarkefinu o.s.frv.

Frú forseti. Þó að það séu vissulega ákveðin (Forseti hringir.) atriði jákvæð í þessu frumvarpi þá vega gallarnir að mínu mati miklu þyngra og mér persónulega er ekki nokkur leið að styðja það.