143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:01]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nákvæmlega þetta, ef menn túlka það þannig að 100 þúsund heimili nýti sér þetta, þá mun væntanlega stór hópur nýta sér að safna fyrir kaupum á húsnæði. Þá kem ég að því sem hefur komið mér á óvart í umræðunni og líka í lausnunum í heild.

Menn hafa talað mjög fjálglega um leigjendamarkað. Við í fyrri ríkisstjórn höfðum þá stefnu að jafna ætti stöðu leigjenda og kaupenda á húsnæðismarkaði, en í raunveruleikanum er hér verið að hvetja fólk sérstaklega til að safna til kaupa. Menn geta sagt: Í framtíðinni á að koma eitthvað annað. Hvenær? Hvenær kemur það fyrir þann sem velur að vera á leigjendamarkaði? Það er akkúrat það sem er að gerast að hluta, menn eru að velja leiguformið sem búsetuform frekar en eignaformið. Hæstv. ríkisstjórn hefur talað fyrir því í öðru orðinu, en er ekki mótsögn í því sem hún er í reynd að gera með þessum tillögum og einnig tillögunum sem verða hér til umfjöllunar á morgun?