143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:39]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór yfir það í ræðu minni að mér finnst flestallt benda til þess að þær aðgerðir sem er verið að grípa til núna með ærnum tilkostnaði muni ekki hjálpa því fólki sem er í erfiðleikum þannig að það fólk verði ekki lengur í erfiðleikum. Mér sýnist það blasa við.

Fólk með lágar tekjur á í mestum erfiðleikum með að greiða afborganir af lánum. Fólk með lágar tekjur á mjög erfitt með að nýta sér úrræðið sem við ræðum hér í dag vegna þess að það hefur einfaldlega ekki færi á því að leggja mikið inn í séreignarlífeyrissparnað, það er ekki með þannig tekjur. Svo skuldar það ekki svo mikið í krónutölu og þess vegna mun hitt úrræðið ekki nýtast því heldur því að þar er miðað við hlutfall af eftirstöðvum skulda.

Fólk í þeim vanda sem hv. þingmaður er að lýsa (Forseti hringir.) mun því ekki fá úrlausn síns vanda í gegnum þessi rándýru úrræði. Það er sorglegt.