143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:41]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Hér segir hv. þingmaður með miklum sannfæringarkrafti að þessar aðgerðir séu ekki óþarfar. Ég þarf að heyra sterkari fullyrðingar og sterkari röksemdir fyrir því að við eigum að fara í 130–150 milljarða útgjöld úr ríkissjóði. Það er einfaldlega svoleiðis. Ég þarf að heyra að þetta sé fullkomlega bráðnauðsynlegt. Ég þarf að heyra að þetta muni bjarga fólki sem á í miklum skuldavanda. Þetta gerir það ekki. Ég þarf að heyra að þetta bæti forsendur efnahagslífsins, skapi vöxt í framtíðinni, minnki byrðar á komandi kynslóðum. Þetta þarf ég að heyra. Það heyri ég ekki í málflutningi þeirra sem styðja þessar tillögur. Nú er röksemdin orðin sú að þetta sé ekki óþarft. Það eru alls ekki nógu sterk rök.