143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:45]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svarið.

Ég tel hins vegar þvert á móti að í þessari aðgerð felist tækifæri til að breyta hugsunarhætti. Samhliða þarf auðvitað ýmislegt fleira að koma til eins og við höfum rætt, aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar, breyting á verðtryggingunni, niðurfelling verðtryggingarinnar. Að minnka peningamagn í umferð í framhaldi af þessari aðgerð er mikilvægur þáttur í því að draga úr skuldsetningu.

Þingmaðurinn ræddi líka um að þessu fylgdu ekki hvatar til að skapa vöxt í efnahagslífinu. Felst ekki einmitt í því hvati til vinnu, hvati fyrir fólks til að vinna og hvati til að afla tekna, hvati til að draga úr svartri atvinnu, eins og við höfum stundum rætt að vanti?