143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:51]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, mér finnst það ekki skynsamleg hagstjórn. Mér finnst mjög mikilvægt að gera greinarmun á nokkrum formum sparnaðar. Lífeyrissparnaður, hann er ekki aðfararhæfur, hann er ekki veðhæfur, hann bíður þín. Undir venjulegum kringumstæðum á hann að bíða þín í framtíðinni til að hjálpa þér að hætta að vinna, hjálpa hv. þingmanni og okkur öllum að hætta að vinna.

Húsnæðissparnaður, að eiga húsnæðið sitt, það er mjög gott, vissulega, en margir dreifa kostnaði við að eiga húsnæði einfaldlega yfir æviskeiðið og í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt að gera það. En húsnæðissparnaður, hann er veðhæfur, skapar veðrými.

Svo er sparnaður á innlánsreikningum, sparnaður af því tagi er mjög lítill á Íslandi. Það er ágætlega farið yfir þetta, t.d. í skýrslu Seðlabankans um valkosti í gjaldmiðilsmálum frá því fyrir ári. Í sögulegu samhengi hefur sá sparnaður alltaf verið lítill á Íslandi, íslensk heimili hafa aldrei getað lagt neitt almennilega fyrir til sveiflujöfnunar. Og vegna þess að sá sparnaður er ekki fyrir hendi er mjög líklegt að (Forseti hringir.) íslensk heimili sæki í sparnaðinn sem þau geta veðsett, sem er húsnæðissparnaðurinn, og nýti hann til nauðsynlegrar neyslu, viðhalds og sveiflujöfnunar. Í þessu samhengi er þetta slæm aðgerð.