143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:54]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samkvæmt mínum kokkabókum lagði hv. þingmaður að hluta til mér orð í munn en ég ætla ekki að elta ólar við það. Ég sagði ekkert um ávöxtunina. Ég sagði að vörsluaðilar viðbótarlífeyrissparnaðar á þessari stundu, miðað við gjaldeyrishöft og fáa fjárfestingarkosti, gerðu engar sérstakar athugasemdir við þá tímabundnu aðgerð að þeir fengju ekki inngreiðslu inn í sjóðina til ávöxtunar nú. Ég held að það sé kannski lýsandi fyrir þeirra viðhorf á þessari stundu.

Það sem ég er að segja að við þurfum að hafa áhyggjur af er að ef fólk nýtir þennan viðbótarlífeyrissparnað núna skattfrjálst, þá gerist tvennt: Þessi viðbótarlífeyrissparnaður kemur ekki til útgreiðslu sem lífeyrissparnaður þegar fólk mun þurfa á honum að halda á efri árum og hann mun ekki heldur gefa af sér skatttekjur á þeim tímapunkti. Og vegna þess að hann kemur ekki til útgreiðslu sem lífeyrissparnaður í framtíðinni (Forseti hringir.) mun það fólk án efa gera kröfu um að aðrir komi með pening svo að það geti hætt að vinna (Forseti hringir.) og haft það gott og þá beinast spjótin að almannatryggingakerfinu.