143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Hv. þingmaður áttaði sig ekki á því að hann var að færa rök fyrir málinu. Ef það eru fáir fjárfestingarkostir þýðir það að það verður léleg ávöxtun. Þá fáum við ekkert út úr þessu kerfi. Ég bið hv. þingmann að benda mér á hvað sé betri fjárfestingarkostur, hvað sé betra að gera en að greiða niður skuldir. Hvaða betri ávöxtun getur hv. þingmaður bent á en þá að greiða niður skuldir?

Ef hv. þingmaður ætti að ráðleggja kjósanda sínum, sem væri kannski á svipuðum aldri og hv. þingmaður, hvort hann ætti að halda í viðbótarlífeyrissparnaðinn sinn og fá þá það út sem hann er að biðja um, eða greiða niður skuldir, við þekkjum kostnaðinn við skuldirnar, hverju mundi hv. þingmaður mæla með? Hvort er hagstæðara fyrir kjósandann, ef hv. þingmaður, sem hefur skoðað þessi mál mjög vel, fengi nú að ráðleggja viðkomandi?