143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:41]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns og það var margt í henni sem mér líkaði ágætlega. Það eru samt í henni atriði sem mér finnst einhvern veginn stangast á hvert við annað og ég verð að segja að mér finnst eiginlega alveg óskiljanlegt að hv. þingmaður og flokkur hennar, Samfylkingin, skuli leggjast gegn því ágæta frumvarpi sem hér er til umræðu. Ég hef því miður ekki heyrt neitt annað en gagnrýni á það.

Það er til dæmis bent á að þetta frumvarp komi til með að bitna á tekjum sveitarfélaga. Það er rétt. Við teljum hins vegar að það komi til móts við það marga að það geti skilað sér aftur út í efnahagslífið, jafnvel aukið hagvöxt og þannig skilað meiri tekjum til langframa. En á meðan verið er að gagnrýna á þessum forsendum er lögð fram breytingartillaga sem mun gera það að verkum að tekjur ríkissjóðs munu lækka. Ég held að breytingartillaga hv. þingmanns sé allra góðra gjalda verð. Hún er í ætt við breytingartillögu sem ég sem fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd lagði fram ítrekað á síðasta kjörtímabili en var ítrekað hafnað, því miður. Það var ekki fyrr en undir lok kjörtímabilsins sem sást glitta í einhverja tilburði í þá átt að setja fjármuni í barna- og vaxtabætur. Ég verð að segja alveg hreint út að mér finnst mjög sérstakt (Forseti hringir.) að þegar kemur fram frumvarp sem á að stuðla að jöfnuði fyrir launafólk, fyrir heimilin í landinu og verið er að leiðrétta ranglæti, skuli þingmenn Samfylkingarinnar stíga hér í pontu og finna því allt til foráttu.