143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst málflutningur hv. þingmanns, sem ég er annars oft sammála, með algerum ólíkindum. Ég get sagt hér og nú að það varð hrun. Það varð nefnilega hrun efnahags og samfélags eftir stórkostleg hagstjórnarmistök framsóknar- og sjálfstæðismanna. (Gripið fram í: Samfylkingar og sjálfstæðismanna.)Stórkostleg hagstjórnarmistök voru gerð í tíð ríkisstjórnar framsóknar- og sjálfstæðismanna. (Gripið fram í.) Við reistum við samfélag (Gripið fram í.) eftir efnahagshrun og reyndum að mæta þeim sem verst voru staddir. Stundum gripum við til almennra aðgerða en flestum aðgerðunum var beint að þeim sem voru í erfiðastri stöðu. Í þessum aðgerðum núna er hins vegar verið að rétta fólki sem er í ágætri stöðu skattfé og meira að segja leggur hv. efnahags- og viðskiptanefnd til að þeir ríku geti fengið aðeins meira því að viðmiðið er hækkað upp í 750 þúsund á ári, og hverjir eru það sem geta lagt slíkt fyrir með séreignarsparnaði? Hverjir eru það? (Gripið fram í.)

Síðan er það þannig að efnahagslegar afleiðingar aðgerðanna eru mikilli óvissu undirorpnar. Það viðurkenna allir. Langlíklegast er, því miður, að efnahagslegu afleiðingarnar muni í framtíðinni bitna mest á þeim sem verst standa. Því miður er það þannig. Ég vildi svo sannarlega óska þess að hv. stjórnarþingmenn mundu skoða þetta aðeins betur og reyna að rýna inn í framtíðina og skella ekki stórkostlegum byrðum, vanhugsað, á framtíðina.