143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki svarað fyrir aðra sem hafa talað hér fyrr í dag, en ég benti á áhyggjur minni hluta hv. fjárlaganefndar af því hvaða afleiðingar þetta muni hafa fyrir Íbúðalánasjóð. Við þekkjum vel að Íbúðalánasjóður er í miklum vanda. Það er bæði uppgreiðsluáhættan sem hann býr við og svo vaxtamunur. Að einhverju leyti vitum við að uppgreiðsluáhættan vex við þessar aðgerðir. Hún gæti vaxið meira en bara vegna þessara aðgerða því að það gæti losnað um hjá fólki og það greitt enn frekar upp þau verðtryggðu lán sem það á hjá Íbúðalánasjóði.

Þetta er raunveruleg áhætta sem við þurfum að horfast í augu við. Það þýðir ekki að rífast við hv. stjórnarandstöðuþingmenn um það, þetta er bara svona. Ef menn ætla að fara út í þessa aðgerð þurfa þeir að reikna með þeim kostnaði og gera sér grein fyrir því að þá þarf einhvern veginn að leggja út fyrir honum. Það getur hugsanlega komið niður á velferðarþjónustunni, við vitum það ekki. Það fer eftir því hvernig plönin eru en ég hef ekki séð þau.