143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:39]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Greiðsluvandinn hverfur ekki, alla vega ekki hjá mörgum, með þeirri aðgerð sem við ræðum hér í dag; ég held að margir hafi ekki ráð á henni og hún leysi því ekki þann vanda og ekki heldur aðgerðin sem við tölum um í næsta máli.

Rúmlega 11% hækkun hefur orðið á fasteignaverði hér á höfuðborgarsvæðinu á ári og því sagði ég þetta áðan að kannski er ástæða til að velta því fyrir sér hvort þessi aðgerð er þörf fyrir þann hóp sem hún er ætluð. Ég vil minna á að þó að lægra hlutfall sé út á landsbyggðina þá er það vegna þess að íbúðaverð er líka lægra, það er vissulega þannig. En gleymum ekki öðrum aðstæðum fólks, t.d. hefur vöruverð eða þjónusta sem fólk sækir sér hækkað alveg jafn mikið úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu. Það er forsendubrestur.