143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:42]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur. Hér var talað um að hugsanlega hvetti þetta til aukinnar vinnu og hv. þingmaður gaf ekki mikið fyrir það að láta okkur vinna mikið. Þá langar mig að beina orðum mínum til hv. þingmanns og spyrja hvort það að hafa hvata til að borga inn á séreignarsparnað til að geta síðan greitt inn á fasteignalánin sín sé hugsanlega hvati fyrir þá sem við vitum hér og nú að stunda svarta atvinnustarfsemi og sæju sér hag í því að gefa upp tekjur sínar til að geta farið þá sparnaðarleið sem boðið er upp á, annað tveggja, að safna sér inn á húsnæðissparnað eða greiða niður lánið. Sér hv. þingmaður hugsanlega eitthvert samspil þar á milli?