143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:43]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að mér finnst Íslendingar almennt vinna of mikið og eins og ég sagði erum við farin að ræða það að stytta vinnuvikuna. Það má vel vera að einhverjir sjái það sem hvata að fara að gefa upp vinnu sem þeir vinna svarta en ég er samt ekki endilega viss um að þetta sé eingöngu til þess fallið að þeir sem eru í svartri vinnu telji það næga ástæðu til að gefa upp tekjur. En það væri áhugavert að sjá og verður kannski rannsóknarefni framtíðarinnar hvort þetta gerist, hvort það breytist og ég held að það sé eitthvað sem við þurfum að vera vakandi fyrir. Það væri ánægjulegt ef svo færi að þeir sem stunda svarta atvinnustarfsemi gætu lagt inn á húsnæðissparnaðarreikning. Ég held að það sé viturlegra en að hugsa þetta eingöngu út frá séreignarsparnaðinum eins og hann kemur fyrir hér. En hin leiðin væri skynsamleg.