143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[21:09]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem nú hér upp af kurteisi við þingmanninn af því að hann fór í andsvar í stað þess að ræða þetta í ræðu sinni, þannig að ég býst við að hann óski eftir viðbrögðum af minni hálfu. Um það hef ég að segja að samkvæmt hinni hefðbundnu skilgreiningu er talað um þrjár stoðir lífeyriskerfisins en sannarlega er það þannig að velji fólk og geti sparað til elliáranna myndast hin fjórða stoð.

Varðandi skattlagningu á þeim sparnaði þá vil ég minna hv. þingmann á að við höfum á síðustu árum verið að sigla þessu hagkerfi út úr algeru þroti og verið að reyna að koma heimilum, fyrirtækjum og ríkissjóði til bjargar til að kollsigla ekki.