143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[21:20]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Á morgun verður rætt annað frumvarp sem þessu fylgir en ég ætla í upphafi máls míns að lýsa þeirri skoðun að þessi frumvörp séu helst til snemma á ferðinni þar sem svokallað hagstofufrumvarp var samþykkt á sumarþingi á liðnu ári. Í hagstofufrumvarpinu átti að greina skuldastöðu heimila með þeim hætti að þar væri hægt að vinna markvisst að úrlausnum á skuldum heimila.

Þessi úrvinnsla Hagstofunnar á skuldum heimila í landinu hefur ekki farið fram og er alls ekki undanfari þeirra frumvarpa sem hér eru rædd. Það er miður því að hér er um háar fjárhæðir að ræða og skiptir máli hvernig þeim er ráðstafað. En þó vil ég segja það almennt um húsnæðissparnaðarkerfi liðinna ára að það hefur yfirleitt haft hvata til skuldsetningar og ýmsa aðra hvata til að koma í veg fyrir sparnað.

Ég ræddi í andsvari áðan að frjáls sparnaður hefur verið skattlagður þannig að um eignarnám er að ræða. Þar er ekki gerður greinarmunur á rauntekjum og nafntekjum þar sem verðbætur eru skattlagðar eins og um tekjur sé að ræða. Þetta hefur leitt til þess að skuldir heimila í þessu landi hafa aukist úr 25% af ráðstöfunartekjum árið 1980 í 250% af ráðstöfunartekjum árið 2007.

Í dag eru skuldir heimila sennilega í mjög svipuðu horfi og þær voru 2006 í hlutfalli við landsframleiðslu. Sennilega voru þau hlutföll of há þá eins og þau eru of há nú. Ég ætla að fjalla um það sem ég tel grundvallaratriði í allri lagasetningu, að hún mismuni ekki þegnum. Það sem ég hef áhyggjur af í þessu frumvarpi er að það mismuni þegnum með þeim hætti að vart sé forsvaranlegt. Það sem ég segi er ósköp einfaldlega það að sá skattalegi ávinningur sem í þessu frumvarpi felst nær ekki til þeirra sem eiga íbúð nú þegar og vilja bæta við sig. Hann nær ekki til þeirra sem eru komnir út af vinnumarkaði og geta ekki bætt við sig lífeyrissparnaði sem þá yrði ráðstafað til greiðslu lána eða uppsöfnunar til að eiga eigið framlag til íbúðarkaupa. Kosturinn við þetta frumvarp er sá að það er reynt að koma til móts við sjónarmið um sparnað til íbúðarkaupa og er það vel. Vinnur það jafnvel gegn þeim meginsjónarmiðum sem hafa verið hér á undanförnum árum sem hafa verið fremur hvati til skuldsetningar.

Annað er að þetta frumvarp nær ekki til ýmissa óhefðbundinna búsetuforma, ef svo má segja, eins og húsnæðissamvinnufélaga. Það nær heldur ekki til leigufélaga en það er kannski umfjöllunarefnið á morgun. Ég ætla nú að láta þessa mismunun yfir mig ganga, það verður frekar að dómstólar fjalli um hvort þessi mismunun sé réttlætanleg. Það er þó eitt sem ég sætti mig ekki við í þessu frumvarpi, reyndar ekki í frumvarpinu sjálfu heldur í breytingartillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvenær sú breytingartillaga kom fram. Ég hef mætt af kostgæfni á nefndarfundi í efnahags- og viðskiptanefnd en reyndar ekki á allra síðustu fundi þar sem ég þurfti að sinna öðrum nefndarstörfum.

Ég sætti mig ekki við að hér sé hjónabandinu sýnd lítilsvirðing. Einn þegn í þessu landi er ein persóna og þegar persónan gengur í hjónaband með maka sínum missir makinn, eftir atvikum, 50% af réttindum sínum eða hvor um sig missir 25%. Þær fjárhæðir sem hér eru nefndar og koma í stað 500 þúsunda á fasteign — hugtakið fasteign eða heimili er ekki til í skattalögum og varla í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Vissulega er fasteign til í lögum um húsnæðismál en í allt öðru samhengi. Hér verða til 500 þúsund á einstakling og 750 þúsund á hjón. Ég get ekki sætt mig við þessar upphæðir. Þær eiga sér engar málefnalegar forsendur og það er ekki hægt að sætta sig við það á löggjafarþingi á Íslandi árið 2014 að mismuna þegnum svona. Þessi löggjafarsamkoma hefur jafnvel boðið sig fram til að kenna lýðræði og stjórnsýslu í öðrum löndum en ég tel að þetta sé vond stjórnsýsla. Ég tel að Alþingi geti ekki staðið að því árið 2014 að taka hjónabandið svona í gegn. Tveir aðilar sem ganga í hjónaband geta ekki misst réttindi sín með þessum hætti og ég mun aldrei sætta mig við þetta. Ég tel kominn tíma til að fólki hverfi frá ýmsum sérlausnum og geðþóttalausnum því að þessi lausn hér á sér engar málefnalegar forsendur og ég get ekki spurt nokkurn mann hér inni af hverju einstaklingur verður allt í einu hálfur þegar komið er hér í þessu máli.

Ég geri mér grein fyrir vanköntum þessarar leiðar. Hún er tilraun til að auka sparnað en þessi síðasta viðbót frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar er algerlega óásættanleg að mínu mati og ég vona að þingið sjái sóma sinn í því að meðhöndla kjósendur jafnt í þessu landi en skeri þá ekki niður við trog eftir aðstæðum.

Læt ég lokið máli mínu að sinni.