143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[21:29]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Hann minntist á svokallað hagstofufrumvarp sem var rætt hér á síðasta ári og samþykkt. Eins og hann sagði átti það að liggja til grundvallar þeim frumvörpum sem hafa komið fram.

Nú hefur í rauninni ekki heyrst mikið minnst á það í þessari umræðu fyrr en núna en það getur hafa farið fram hjá mér. Mig langar til að spyrja þingmanninn sem situr í efnahags- og viðskiptanefnd: Hefur hann einhverjar upplýsingar um hvenær hagstofufrumvarpið mundi hugsanlega liggja fyrir? Það væri fróðlegt að vita.

Ég er hins vegar ekki alveg sammála því að það þurfi svo nákvæmar upplýsingar sem þar á að afla til þess að ráðast í tillögugerð af þeim toga sem hér er. Ég held að þær upplýsingar sem við höfum núna og liggja fyrir séu alveg nógu nákvæmar til þess að sýna fram á verið er að veita peninga inn í tekjuhópa og til fólks og fjölskyldna sem eru þannig í stakk búnar að þær þurfa ekki á þeirri aðstoð að halda sem er verið að leggja til í þessu frumvarpi. (Forseti hringir.)

Nú er ég kannski að ræða bæði frumvörpin í einu en mig langaði aðeins að spyrja hann um hagstofufrumvarpið.