143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[21:35]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann hefur gert grein fyrir sjónarmiðum sínum og þau höfðu svo sem komið fram í almennri umræðu um þetta mál á fyrri stigum. Þannig má ráða að þingmaðurinn er ekki hrifinn af þeirri leið sem farin er af hálfu hæstv. ríkisstjórnar í skuldaleiðréttingarmálum.

Það er tvennt sem ég vil vekja máls á og inna hv. þingmann eftir. Í nefndaráliti meiri hlutans er vísað til þess að þetta lagafrumvarp og þessi leið eigi sér stoð í þingsályktunartillögu sem samþykkt var 28. júní 2013. Ég vil af þeim sökum spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki stutt þá þingsályktunartillögu og hvort hann telji þá að sú leið sem hér er farin sé ekki í samræmi við þá þingsályktunartillögu eins og ráða má af nefndaráliti og framsöguræðu hv. þm. Willums Þórs Þórssonar, framsögumanns nefndarinnar, í málinu fyrr í dag. Þetta er fyrra atriðið sem ég vil spyrja hv. þingmann að.

Hið síðara lýtur að umræðunni um sparnað. Ég held að við hv. þingmaður séum sama sinnis um mikilvægi þess að efla sparnað í landinu. Það eru auðvitað áhöld um það hvort þessi leið sem hér er farin muni raunverulega auka sparnað. Það hefur verið bent á það að meðal annars sé hér breyting að því er varðar hina veðhæfu eign sem geti hugsanlega leitt til þess að með því að fá meira rými til að veðsetja eignina geti það frekar leitt til aukinnar einkaneyslu en hitt.

Ég vil inna hv. þingmann eftir viðhorfum hans til þessara álitamála.