143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[21:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér nefndarálit um frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem og frá minni hluta. Frumvarpið sem við ræðum er að mínu mati hvatning til sparnaðar. Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að um 59 þús. heimili, það er reyndar dálítið erfitt með skilgreininguna á heimili hjá skattstofunni, eru ekki með séreignarsparnað. Það er viðbúið að einhver hluti af þeim, jafnvel góður hluti, fari að spara og það er aukning á sparnaði í þjóðfélaginu.

Þau þurfa fyrst að byrja á því að spara og síðan geta þau hugsanlega nýtt sparnaðinn til þess að kaupa íbúð, þ.e. sparnaðinn í þrjú ár þegar þau njóta skattfrelsis. Eftir það munu þau væntanlega halda áfram að spara, ég sé ekki að menn hætti endilega að spara þegar þeir eru komnir upp á lagið með það og fá framlag frá atvinnurekanda og slíkt. Ég tel að sá hluti verði til þess að hvetja til sparnaðar og nota til þess skattkerfið í þrjú ár.

Svo eru það líka hinir sem munu nota séreignarsparnað þessi þrjú ár til að greiða niður skuldir á heimilinu. Ég hef ekki neina trú á því að fólk muni hlaupa til og fara að skuldsetja það sem losnar af veðrými þannig að niðurstaðan af þessu verður væntanlega sú að heildarskuldir heimilanna lækka. Það er líka sparnaður að greiða niður skuldir.

Áðan var talað um kerfi til þessa og hins, barnabætur og alls konar kerfi. En það er svo merkilegt að það er ekkert kerfi til sem hvetur til sparnaðar. Það eru hins vegar mörg kerfi sem hvetja til skulda en aðgerðin í því frumvarpi sem við ræðum á morgun hvetur til að greiða niður skuldir. Frá því að ég komst til vits og ára, átta eða níu ára, hef ég aldrei heyrt aðra umræðu en um að bjarga skuldurum. Það hefur aldrei verið rætt um að bjarga sparifjáreigendum. Menn hafa meira að segja talað um að þeim hafi verið hleypt í gegnum hrunið með sérstökum aðgerðum, en það gleymdist að geta þess að þeir urðu að sætta sig við það að vera bundnir hér á landi með sínu sparifé og þurfa að sæta því að erlend mynt er orðin miklu dýrari. Þeirra mynt hefur rýrnað verulega í verði miðað við til dæmis aðra sem höfðu lagt inn erlendis á Icesave-reikninga. Þeir fengu sínar innstæður greiddar að fullu og fullverðtryggðar í þeirri mynt sem um var að ræða. Innlendir sparifjáreigendur hafa tapað á hruninu, ekki spurning, fyrir utan það að þeir eru náttúrlega alltaf með neikvæða vexti á sparifé sínu, yfirleitt, nema það sé verðtryggt. Svo eru þessir neikvæðu vextir skattaðir. Lítill hluti af sparifé er verðtryggður.

Þetta var útúrdúr. Hér er verið að ræða frumvarp sem virkilega tekur til sparnaðar.

Nokkuð hefur verið rætt um áhrif þess á einstaklinginn. Hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason ræddi áðan um að það ætti að horfa á einstaklinginn frekar en heimilið. Það má segja að hann eigi styrk og stuðning í öryrkjadómi Hæstaréttar sem sagði að það ætti að líta á einstaklinginn en ekki heimilið. Alla þá einstaklingsvæðingu sem fylgdi í kjölfar þess dóms ættu menn að skoða. Hann hefur það til síns máls, þótt hann hafi ekki fært það sem rök, að öryrkjadómurinn styrkti það að horfa ætti á einstaklinginn. Hins vegar tel ég að sú breyting sem gerð er í meirihlutaálitinu að hækka úr 500 þús. kr. fyrir heimilið, þ.e. sé jafnt og fyrir einstakling, upp í 750 þúsund fari bil beggja, að líta á einstaklinginn og líta á fjölskylduna.

Ég get alveg fallist á það. Við erum líka með þessa mismunun mjög víða, t.d. mjög sterka mismunun í barnabótum eftir því hvort það er einstaklingur eða hjón sem eiga börn. Einstaklingur fær töluvert miklu hærri barnabætur en hjón.

Nokkuð hefur líka verið rætt um greiðslujöfnunarreikninginn. Ég hef verið að skoða það og framlag í hann fer nú lækkandi. Ef svo fer fram sem horfir, sem við vonumst náttúrlega til, að tekjur hækki meira en verðlag, sem þær hafa reyndar gert, og atvinnuleysi minnki mun þetta framlag minnka og jafnvel snúast yfir í það, eða fljótlega, að menn fari að borga meira sem skulda þennan greiðslujöfnunarreikning en þeir sem ekki fóru í þá aðgerð, auk þess sem hann er svo lágur hlutfallslega að það er langt í land með að hann verði felldur niður við lok lánstímans eins og vænst er. Ef hann er ekki felldur niður við lok lánstímans eru þetta nákvæmlega sömu kjör og lánið, sömu vextir, sama verðtrygging á þessum greiðslujöfnunarreikningi og hann kemur lánþegunum ekkert til góða nema í því að hann lengir lánið.

Hins vegar er munur á því hvort hann er greiddur niður með þeirri leið sem við erum að ræða hér vegna þess að ef hann er greiddur niður helst greiðslubyrðin. Reyndar er hann væntanlega það lágur, eða yfirleitt verður hann meira en hann er greiddur niður þannig að menn munu líka ganga á höfuðstólinn. Árleg greiðsla lækkar ekki eins mikið og framlagið gefur til kynna. Ég tel það ágætt. Ég held að það sé ágætt að menn borgi lánin með svipuðum hraða og hingað til. Ég er mjög hlynntur því að menn borgi niður greiðslujöfnunarreikninginn, enda held ég að hann sé ekki síður tryggur fyrir bankann, að fá að lána lengur með háum vöxtum því að íbúðalán eru ekkert sérstaklega ódýr, langt í frá. Sennilega er besta leiðin hjá fólki að greiða niður lán, það er besta leiðin, og það að fara í greiðslujöfnunarreikninginn greiðir þá lánið hraðar niður.

Nokkuð hefur verið gagnrýnt í þessari umræðu, sem hefur verið ágæt, menn hafa sagt að vandamálinu sé varpað inn í framtíðina. Ég er engan veginn sammála því. Það sem er verið að gera hér er að verið er að breyta séreignarsparnaði sem margir eru þá hvattir til að fara í sem ekki gerðu það áður. Það er verið að breyta séreignarsparnaði í aðra eign sem er íbúðareign. Ég veit ekkert hvort er tryggara til framtíðar. Fasteign hefur verið með því tryggara á Íslandi og ég er ekkert viss um að hún sé endilega minna trygg en séreignarsparnaðurinn. Menn hafa talað um að hún sé ekki veðhæf. Jú, það getur vel verið að þeir sem standa frammi fyrir gjaldþroti eða óttast að fara í gjaldþrot ættu ekki að fara þessa leið, að breyta séreign yfir í að lækka skuldir, vegna þess að séreignin er undanþegin gjaldþroti. Allir hinir ættu samt að gera það. Það er ekki reglan í þjóðfélaginu að menn verði gjaldþrota.

Það sem gerist er að skuldir heimilisins lækka og menn eiga þá minna í séreign. Séreignin erfist ekki. Jú, reyndar, hún erfist en fasteignin erfist ekki síður. Það er mjög mikill plús fyrir þá sem ekki vita það að búa í skuldlausri eign þegar menn eru komnir á lífeyrisaldur. Það er mikils virði fyrir fjármálalegt sjálfstæði fólks að eiga skuldlausa eign. Það gleymist oft í þessari umræðu að maður sem á eign í fasteign, segjum skuldlausa, er sjálfstæðari en sá sem til dæmis leigir og á ekki neitt og er háður ýmsum vandamálum ef einhver steðja að honum meðan hinn getur alltaf notað eignina til að bjarga sér.

Menn kvarta undan því að þeir sem hafa hæstu tekjurnar fái mest. Það má vel vera en það er bara mjög víða. Ég veit ekki betur en að fólk hafi sætt sig við það að í lífeyriskerfinu þar sem menn njóta skattfrelsis, að menn njóti skattfrelsisins af því sem þeir borga í lífeyrissjóð. Það er skattfrjálst og þeir sem hafa hæstu tekjurnar njóta mest skattfrelsisins og fá mest út úr lífeyrissjóðunum. Þar eru menn ekki að kvarta undan því að þeir sem hafi hæstu tekjurnar fái mest. Þeir fá nefnilega mest.

Menn segja að við eigum að láta séreignarlífeyrissjóðina okkar í friði. Ég hef reynt að grennslast fyrir um það í dag hvernig séreignarkerfinu hefur reitt af og fá upplýsingar um það hvar eignin er. Ég fæ það til ársins 2012 og þrátt fyrir úttektir hér og þar og úttektir til neyslu sem síðasta ríkisstjórn gerði, hún leyfði fólki að taka út það lága upphæð að það gagnaðist ekki til að borga niður skuldir eða neitt slíkt. Þetta fór yfirleitt í neyslu. Þrátt fyrir allar þessar úttektir sem voru umtalsverðar heldur séreignarsparnaðurinn áfram að vaxa.

Mér segir svo hugur að þessi svokallaða atlaga að séreignarsparnaði muni ekki minnka séreignarsparnaðinn, sérstaklega vegna þess að þetta er hvati til að spara. Við erum aðeins að tala um þrjú ár sem menn geta notað skattfrelsið til að borga niður skuldir.

Það hefur líka verið bent á það að leigjendur þurfi að flýta sér að kaupa fyrir lok þessa tímabils. Það er rétt og það getur vel verið að menn þurfi að skoða það betur þegar fram líða stundir hvort ekki þurfi að milda það tímabil þannig að menn fái ekki eitthvert högg á fasteignamarkaðinn á því tímabili. Ég held að við höfum nógan tíma til að skoða það.

Svo hefur mikið verið bent á að ríki og sveitarfélög verði af tekjum. Það kemur dálítið óþægilega við mig vegna þess að það er eins og ríki og sveitarfélög eigi tekjur borgara sinna. Það er eins og búið sé að segja: Heyrðu, ég ætla að taka þennan part af tekjunum þínum, 14% segir sveitarfélagið, og ég er búinn að eignfæra það. Ég ætla að eiga þetta um alla framtíð. Það finnst mér dálítið óhugguleg tilfinning, að þetta skuli vera svona, að menn skuli líta svona á þetta. Ég held að nákvæmlega eins og heimili sem lendir í því að hafa minni tekjur og þarf að sýna meiri ráðdeild og sparsemi í rekstrinum þurfi sveitarfélagið að gera það líka. Þau hafa reyndar gert það, þau hafa reyndar verið að bæta stöðu sína allverulega. Reyndar fannst mér oft og tíðum að sveitarfélögin væru ansi glannaleg í fjárfestingum í góðærinu. Þau hafa tekið á því í rekstri sínum og það er ágætt.

Ég tel að þetta frumvarp sé hið besta mál og þá sérstaklega vegna þess að það er hvatning til sparnaðar. Ég stend heils hugar að því vegna þess að það er líka skattalækkun og þegar þetta tvennt fer saman verð ég mjög ánægður.