143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[22:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði nú orðið aldeilis hissa ef við værum sammála í öllu, ég og hv. þingmaður. Það kemur mér aftur í jafnvægi að hv. þingmaður skuli ekki vera sammála mér. Hvort þetta efli sparnað? Ég tel reyndar að það besta sem menn geti gert í viðskiptum sé að fara í séreignarsparnað, leggja fyrir og safna fyrir íbúð, þeir sem ekki eiga íbúð, ég tel að það sé bara virkilega góður kostur. Þá á ég við þessi 59 þúsund sem ekki spara í séreignarsparnaði, 59 þúsund manns eða heimili.

Ég held að það væri mjög merkilegt ef 10–20 þúsund af þessum 59 þúsund mundu hefja séreignarsparnað. Þegar þeir eru búnir að spara í þrjú ár og það er í lagi með þetta sé ég enga ástæðu fyrir það fólk að hætta séreignarsparnaði, það heldur áfram að spara. Þar með vex sparnaðurinn.

Svo eru það hinir sem greiða niður skuldir, það er líka sparnaður. Það er ljómandi gott og mikill hvati fyrir það fólk að halda áfram í séreignarsparnaðinum og greiða niður skuldir eða kaupa sér íbúð.