143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[22:02]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður telur sem sagt allar líkur á því að þessi aðgerð muni auka sparnað. Það kom honum að vísu ekki á óvart að við skyldum ekki vera sammála um allt, það er ekki alveg nýtt, en það kemur þó fyrir að við hv. þingmenn deilum sjónarmiðum og verið sammála.

Ég mundi gjarnan vilja inna hv. þingmann betur eftir því sem hann fór yfir í máli sínu og lýtur í raun að flutningi á skattbyrði á milli kynslóða, eins og talað hefur verið um. Hv. þingmaður sagði að honum yrði órótt þegar hann heyrði þau sjónarmið að ríki og sveitarfélög ættu skatttekjurnar. Þetta finnst mér ekki vera alveg rétt frásögn af málinu. Þetta snýst auðvitað ekki um það hvort ríki og sveitarfélög eigi skatttekjurnar en það er óraunsætt að reikna ekki með því að ríki og sveitarfélög þurfi líka að vera með tekjur í framtíðinni fyrir samneyslunni eins og í dag. Það er líka ljóst að þessi aðgerð mun þýða að ríki og sveitarfélög verða af skatttekjum sem þau hefðu fengið að óbreyttu kerfi. Það hljótum við að vera sammála um.

Erum við þá ekki að segja að okkur finnist í lagi, hér og nú, að komandi kynslóðir, börn okkar og barnabörn, hafi úr minna að moða í samneysluna en það sem við höfum getað tekið okkur, ef svo má að orði komast? Mér verður órótt yfir þessum hugsunarhætti, ef það er svona sem hv. þingmaður hugsar, að honum finnist gott að geta notað tekjur ríkis og sveitarfélaga í dag í samneyslu í sína þágu en (Forseti hringir.) standi á sama um að það sé á kostnað komandi kynslóða.