143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[22:06]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það kemur kannski ekki á óvart að hugrenningar mínar undir ræðu hv. þingmanns voru svolítið á líkum nótum og kom fram í spurningum hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar. Ég skil hv. þm. Pétur H. Blöndal þannig að hann segi að þessar tillögur auki sparnað og séu hvatning til sparnaðar og kannski fyrst og fremst þess vegna skil ég hann þannig að fyrir vikið séu þær góðar.

Hann virðist miða við að þessi 59 þúsund heimili sem ekki nota séreignarsparnaðinn núna muni að einhverju leyti fara þar inn. Er það þá rétt skilið hjá mér að það séu sérstaklega þau heimili, það væri vegna þeirra að sparnaður mundi aukast? Á móti hefur hann litlar eða engar áhyggjur af auðsáhrifunum vegna þess að hann segir að 21% heimila búi í skuldlausu húsnæði og virðist ekki hafa neina þörf fyrir að skuldsetja sig. Það eru náttúrlega líka heimili sem eru mjög yfirskuldsett og það eru kannski einmitt þau heimili sem geta núna greitt niður og sem virðast hingað til hafa haft þörf á að nota veðrýmið. Mér finnst þetta ekki alveg, mér finnst þetta svolítið, ég veit ekki hvaða orð ég á að nota, léttvægar skýringar, (Forseti hringir.) þær skipta engu máli.