143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[22:10]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni sem var nokkuð rætt hér við 1. umr. þessa frumvarps. Það var um greiðslujöfnunarreikninginn. Hann útskýrði hvernig honum sýndist að það skipti í rauninni ekki máli og breytti kannski litlu út af fyrir sig fyrir fólk og að til lengri tíma litið væri heppilegt og kæmi út á eitt fyrir fólk að greitt yrði fyrst inn á þennan reikning. Það væri hvort sem er mjög ólíklegt, eins og ég skildi þingmanninn, að það kæmi til þess að fólk greiddi ekki upp allt lánið þannig að kæmi til afskrifta, það mundi bara lengjast í láninu og á endanum skipti þetta litlu sem engu máli.

Nú snýst þetta sem hér er verið að gera og mér fannst verið að gera mikið um væntingar fólks til þeirra kosningaloforða sem gefin voru. Það voru gefin þau kosningaloforð að ráðist yrði í skuldaleiðréttingar sem svo voru kallaðar, það yrði ráðist í þær strax og fólk mundi finna fyrir þeim. Það hefur verið gert grín að því að fólk fengi ávísun í pósti.

Hv. þingmaður hefur komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekkert verra fyrir fólk að þetta gerist svona en hvað heldur þingmaðurinn um væntingar fólks? Heldur hann ekki að fólk verði svolítið hissa þegar það allt í einu sér að það á kannski að fá, ég veit ekki hvað, (Forseti hringir.) 1 milljón, eitthvað svoleiðis, og það mun mest síga inn á þennan greiðslujöfnunarreikning en ekkert koma í aðra hönd og ekki auka ráðstöfunartekjur í dag?