143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[22:37]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Já, það er væntanlega svo að við erum um margt sammála að því er varðar verðtrygginguna. Eins og ég sagði hef ég verið þeirrar skoðunar mjög lengi að verðtryggingin virkaði eins og deyfilyf og að hún hefði leitt til þess að skuldsetning íslenskra heimila væri meiri en ella væri.

Hvernig á að afnema hana? Það er auðvitað ekki einfalt að svara þeirri spurningu í stuttu svari við andsvari. Ég var þeirrar skoðunar einu sinni að það ætti bara að afnema hana með einu pennastriki. Við skulum segja að ég hafi aðeins öðruvísi viðhorf til þess í dag. Ég tel alla vega að það verði ekki gert með einu pennastriki og að væntanlega verði að draga úr henni í áföngum og draga úr vægi hennar eins og hægt er og gera aðrar lánaleiðir eftirsóknarverðari. En þetta er samt mjög erfið blanda vegna þess að á meðan menn eru með verðtryggingu er hætt við því að óverðtryggðir vextir muni samt sem áður alltaf liggja fyrir ofan þannig að heildarvaxtakostnaðurinn verði meiri við óverðtryggð lán og þar af leiðandi verði ekki eins eftirsóknarvert að fara yfir í þau.

Þetta mætti hugsanlega gera með því að ný lán séu almennt óverðtryggð, eins og er nú hugmynd í þeim tillögum sem litið hafa dagsins ljós. Menn eru ekkert allir sammála um það, ekki einu sinni í mínum flokki, hvort það er rétt leið, það eru ólík sjónarmið uppi í því. En alla vega eru hugmyndir þar á ferð (Forseti hringir.) sem mér finnst að skoða þurfi betur.

Að því er varðar síðari spurninguna, um húsnæðissparnaðinn, þá ætla ég að fá að koma betur að því í seinna svari að því gefnu að ég fái ekki allt of margar viðbótarspurningar frá hv. þingmanni.