143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[22:48]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir svörin. Ég er að vissu leyti sammála þessu með arfinn og hef verið það alla tíð en hins vegar tel ég að ef þeir sem nú skulda eignist meira í húsnæði sínu komi það á einhvern hátt til með að nýtast komandi kynslóðum. Við þurfum kannski að velta upp leiðum, hvaða aðrar leiðir eru færar.

Hins vegar langar mig að ræða aðeins um hópana. Það er ljóst, eins og þingmaðurinn kom inn á í ræðu sinni, að sá hópur sem nýtur góðs af þeirri leið sem hér er verið að ræða er nú á vinnumarkaði og með húsnæðislán eða hyggur á húsnæðiskaup. Hóparnir sem falla utan við eru ýmsir hópar sem flestir njóta á einhvern hátt annarra félagslegra úrræða eins og er. Það eru hópar sem eru á niðurgreiddum námslánum. Það eru hópar sem njóta almannatryggingakerfisins á einhvern hátt. Þess vegna langar mig að velta upp hvaða hugmyndir þingmaðurinn hefur um leiðir til að mæta þessum hópum hvað varðar húsnæðiskostnað.