143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[23:17]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er langt liðið á þessa umræðu og mörg orð hafa fallið hér í dag, mörg skynsamleg og önnur kannski með væntingar sem ekki er innstæða fyrir. Ég efa ekki að tilgangur þessara laga sé vel meintur og menn telji sig hafa fundið leið til að lækka höfuðstól lána og hvetja til sparnaðar. Það er auðvitað af hinu góða en mér finnst böggull fylgja skammrifi í þeim efnum.

Við Íslendingar erum gjarnir á að fresta vandanum og mér finnst það einkenna umrætt frumvarp að þær leiðir sem eru valdar eru því marki brenndar að verið er að ýta vandanum á undan sér fram í framtíðina og mæta háværum kröfum um leiðréttingu lána, almenna aðgerð. En svo líta þessi frumvörp dagsins ljós og í þessu frumvarpi, þar sem við erum að tala um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, eru það fyrst og fremst landsmenn allir sem greiða niður skuldir sínar í þessu sparnaðarformi sem boðið er upp á með skattafslætti og svo er boðið upp á að fólk geti lagt til hliðar og sparað fyrir hugsanlegum íbúðarkaupum til framtíðar og ég er frekar á því að það sé skynsamleg leið.

Það er alltaf spurning um útfærslu á þeirri leið, hvernig við útfærum það sparnaðarform. Ég tel ekki skynsamlegt að blanda saman lífeyrissparnaði og húsnæðissparnaði sem eru gjörólíkir hlutir. Við eigum að skoða með hvaða leiðum við getum komið á fót sparnaðarreikningum sem snúa eingöngu að húsnæðissparnaði, sérstaklega fyrir ungt fólk sem er að safna fyrir sinni fyrstu íbúð en fara ekki að blanda saman lífeyrissparnaði og húsnæðissparnaði. Ég tel að það hafi sýnt sig að séreignarsparnaðurinn, sem settur var á fót fyrir þó nokkuð mörgum árum, hefur nýst vel; nýttist vel eftir kreppuna þegar fólk þurfti virkilega á því að halda að nýta alla þá fjármuni sem það hafði möguleika á að ráðstafa í því erfiða árferði sem þá var. En auðvitað er séreignarsparnaður fyrst og fremst hugsaður til að nýtast fólki til efri ára, að það geti bætt upp það sem almannatryggingakerfið býður upp á og jafnvel að fólk geti hætt störfum fyrr en annars væri. Ég tel mjög rangt að blanda því saman við húsnæðissparnað.

Þessi útfærsla á skattafslætti til sparnaðar við niðurgreiðslu húsnæðislána finnst mér hvorki vera réttlát né sanngjörn og nýtast fyrst og fremst því fólki sem hefur hærri tekjur. Mér kemur í huga barátta verkalýðshreyfingarinnar fyrir áramót til að ná fram hækkun persónuafsláttar. Ekki náðist árangur í því en síðan er fólki með háar tekjur og skuldar í húseignum sínum boðinn skattafsláttur og það eru ekki neitt lágar upphæðir sem þar eru á ferð, fólki sem ræður vel við að greiða af lánum sínum og er tekjuhátt. Það hefur komið fram að þetta er jafnvel fólk sem er með yfir hundrað milljónir í eignir. Mér finnst það særa réttlætiskennd þess fólks sem er að berjast á lágum launum til að fá kjarabætur í kjarasamningum og leitar til ríkisvaldsins um að mæta sér í kjarasamningum með hækkun persónuafsláttar. Þá er ekki borð fyrir báru en hægt að auka í þegar kemur að svona aðgerðum.

Það segir sig sjálft að þeir efnameiri hafa miklu meiri möguleika á að leggja til hliðar en þeir sem eru tekjulægri. Það ætti ekki að þurfa að segja það oftar en einu sinni. Þetta er meðgjöf að stórum hluta til þeirra efnameiri í formi skattafsláttar sem síðan er skotið fram í tímann því þessi skattafsláttur nú kemur niður á framtíðinni og þeim sem taka við við kynslóðaskiptin í þessu þjóðfélagi, börnum okkar og barnabörnum. Vandanum er skotið til þeirra með því að ríki og sveitarfélög hafa minni tekjur til að ráðstafa til velferðarmála og uppbyggingar í samfélaginu. Það er vegna þess að sú kynslóð sem nú er hér á landi, sú kynslóð sem bar ábyrgð á því að allt fór til fjandans, ætlar að leiðrétta sig að fullu á kostnað framtíðarinnar og barnanna sem hafa ekki komið nálægt þeim málum sem ollu því að allt hrundi hér.

Ég skil ekki þá umræðu þegar verið er að tala um að hægt sé að leiðrétta afleiðingar hrunsins að fullu, þá eru nú ansi margir sem sitja óbættir hjá garði ef það ætti að vera raunin. Farið var ágætlega yfir, í ræðu sem flutt var hér í dag, allar þær aðgerðir sem fyrri ríkisstjórn fór í og við sem studdum þá ríkisstjórn og störfuðum hér við þær erfiðu aðstæður vorum kannski allt of hógvær eða vorum kannski ekki nógu gírug í að halda á lofti góðum verkum þeirrar ríkisstjórnar sem komu virkilega til góða. En núverandi ríkisstjórn lætur eins og hún sé að leiðrétta forsendubrest eins og ekkert hafi verið að gert þessi ár og leggur til háar fjárhæðir á kostnað framtíðarinnar sem mjög ómarkvisst er unnið úr. Ef vel ætti að vera ætti auðvitað að einangra þessar aðgerðir við þá hópa sem eftir stóðu á síðasta kjörtímabili, þar sem ekki var nóg að gert. Ég er fyrst til að viðurkenna að það voru hópar sem þurftu meiri stuðning og aðstoð en það er ekki það fólk sem er með háar tekjur og á miklar eignir og er kannski með 20 til 30 jafnvel 40 ára gömul húsnæðislán og á nú að fá stuðning til þess, með skattafslætti, að greiða slík lán niður.

Það er líka mjög áhugavert að sjá hvernig Alþýðusamband Íslands fjallar um frumvarpið og kallar eftir greiningu á efnahagslegum áhrifum aðgerðarinnar. Ég held að margir hafi fengið nettan hroll þegar þeir heyrðu þær tölur sem þessar aðgerðir kosta framtíðina í töpuðum skatttekjum. Ég held að kalt vatn hljóti að hafa runnið á milli skinns og hörunds á stjórnarliðum við að heyra hve háum fjárhæðum ríki og sveitarfélög væru að afsala sér til framtíðar.

Ég mundi gjarnan vilja styðja þessa ríkisstjórn í því að útfæra sparnað fyrir ungt fólk, sérstaklega ungt fólk sem er að fara út í sín fyrstu íbúðakaup og vera ekki að blanda lífeyrissparnaðinum þar inn í. En ég get ekki með nokkru móti stutt að verið sé að dæla þessum fjármunum ómarkvisst til þeirra sem þurfa ekkert á þeim að halda. Maður heyrir í fólki, sem er á besta aldri eins og ég, komið eitthvað yfir fimmtugt. Það spyr sig: Út af hverju í ósköpunum ætti að vera að eyða fjármunum ríkissjóðs til að lækka mínar skuldir sem ég ræð við sjálfur? Er ekki nær að huga að unga fólkinu og þeim sem eru að basla á leigumarkaðnum? Það er sá hópur sem situr algerlega hjá í þessum aðgerðum og það er ekki boðlegt að segja að við munum mæta vanda þeirra seinna. Það sé allt í skoðun og það komi að þeim. Þetta sé bara fyrsta aðgerð af einhverjum tíu aðgerðum sem nefndar voru hér í dag.

Menn hafa ekkert úr ótakmörkuðu fjármagni að spila. Þegar menn eru búnir að eyrnamerkja þessar tvær aðgerðir, eða þessi tvö frumvörp, með þessum hætti, að ætla þetta háa fjármuni í þessar aðgerðir, hvaðan á það fé að koma? Menn nota ekki sömu krónuna mörgum sinnum og menn geta ekki yfirboðið það mikið á einum stað og talið sig svo geta haldið áfram að leiðrétta fyrir þá hópa sem þurfa virkilega á því að halda. Mér finnst að það eigi að kalla þetta mál inn og viðurkenna mistök og nýta fjármunina fyrir þá hópa sem eru illa settir í þjóðfélaginu.

Það kom hér fram í könnun nýlega að 30 þús. manns, að ég held, væru undir framfærsluviðmiðum. Það er mikið ef stór hluti af því eru einstæðir foreldrar, einstæðir karlmenn með börn á framfæri. Staða þeirra er mjög bág. Þetta eru ekki þeir hópar sem hafa efni á að leggja til hliðar til að spara til að greiða niður höfuðstól lána sinna. Trúlega eiga þeir ekkert húsnæði og búa við það að hrekjast á erfiðum leigumarkaði. Það má þakka fyrir ef þeir geta séð sér og sínum farborða frá degi til dags.

Ég verð að segja að ég gef ósköp lítið fyrir þetta frumvarp, mér finnst illa vera farið með almannafé og verið að skuldsetja framtíðina og börnin okkar sem ég tel að við höfum ekki neinn rétt til að gera. Við höfum ekki neinn rétt til að ráðstafa með þessum hætti væntanlegum skatttekjum framtíðarinnar svo að þær nýtist ekki næstu kynslóð sem skyldi. Ég held að menn verði bara að bíta í það súra epli að fjallið tók jóðsótt og fæddist lítil mús og menn verða bara að gera betur en þetta ef á að taka mark á stjórnvöldum þegar þau segjast ætla að leiðrétta lán heimilanna, þá verða bara öll heimili að vera undir, ekki útvalin heimili heldur eiga allir heimili, hvort sem það eru leigjendur eða aðrir, og ekkert er komið til móts við stóra hópa heldur eru þetta almennar aðgerðir í þágu útvalinna.