143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[23:52]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við ræðum skuldaleiðréttingarfrumvarp Sjálfstæðisflokksins og skulum glugga í hvað það er sem Sjálfstæðisflokkurinn lofaði fyrir kosningarnar. Í stefnuskrá flokksins segir, með leyfi forseta:

„Forgangsmál Sjálfstæðisflokksins á næsta kjörtímabili eru:“

Þrjú atriði eru nefnd, hið síðasta er að taka á skuldavanda heimilanna. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með raunhæfum lausnum sem geta lækkað höfuðstól lána um allt að 20% á næstu árum og hægt er að hrinda í framkvæmd án tafar.“

Ef við komum inn á hvernig þeir vilja útfæra þessar lausnir sýnist mér þeir útfæra þær algerlega eftir kosningaloforðum sínum. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Tökum á skuldavanda heimilanna.

Fjárhagslegt öryggi og sjálfstæði heimilanna er mikilvægasta verkefni stjórnvalda á hverjum tíma. Með lágum sköttum, vaxandi kaupmætti og háu atvinnustigi er velferð fjölskyldna best tryggð.“

Síðan eru fjórir aðgerðarpunktar, með leyfi forseta:

„220% lægri höfuðstóll meðalíbúðaláns á næstu árum með skattafslætti og skattfrjálsum séreignarsparnaði“.

Það eru þessar tvær leiðir sem þeir nefna þarna, skattafsláttur annars vegar og hins vegar skattfrjáls séreignarsparnaður. Við ræðum hérna síðari hlutann, skattfrjálsan séreignarsparnað. Í samstarfi við Framsóknarflokkinn hefur Sjálfstæðisflokkurinn tekið upp seinni liðinn, sem þeir eru að uppfylla með þessu frumvarpi, meðan Framsóknarflokkurinn hefur farið aðra leið en í heildina á þessi pakki að leiðrétta meðalhúsnæðislán um 20%. Ef við gætum fyllstu sanngirni er Sjálfstæðisflokkurinn að uppfylla þá stefnu sem er nefnd hérna. Í ofanálag tekur þetta lagafrumvarp á 3. liðnum sem kemur fram í stefnuskránni undir liðnum „Tökum á skuldavanda heimilanna“ þar sem segir, með leyfi forseta:

„Fyrstu íbúðakaupin gerð auðveldari með skattalegum sparnaði.“

Í bæklingnum sem Sjálfstæðisflokkurinn afhenti kjósendum og er auðveldari útfærsla á stefnuskránni mætti alveg misskilja ákveðna hluti. Í 2. lið kemur fram, með leyfi forseta:

„Enn meiri höfuðstólslækkun með séreignarsparnaði.

Þú getur líka notað framlag þitt og vinnuveitanda í séreignarsparnað til að greiða skattfrjálst niður höfuðstól lánsins. Þannig greiðirðu sem nemur 4% launa þinna inn á höfuðstól íbúðalánsins. Þessi leið stendur öllum sem það vilja til boða.“

Jú, hún stendur öllum sem vilja til boða en það eru bara ekki allir sem geta nýtt sér hana. Það er kannski það sem stendur út af, en þetta er kannski ekkert villandi í rauninni. Þegar öllu er á botninn hvolft nýtist þetta best þeim sem eru efnameiri enda er Sjálfstæðisflokkurinn ekki jafnaðarflokkur. Þeir vilja flata skatta, þetta er flatt fyrirkomulag.

Eitt sem stingur aftur á móti svolítið í augu — og ég endurtek: Sjálfstæðisflokkurinn er ekki jafnaðarflokkur — er að þegar frumvarpið var fyrst lagt fram var lagt upp með að hægt væri að nýta 500 þús. kr., þ.e. heimili hvort sem það væri einstaklingur eða hjón gæti safnað 500 þús. kr. í séreignarsparnað á ári. Í þau þrjú ár sem eru fram undan mundi sú upphæð safnast og svo væri hægt að nýta hana næstu tvö árin, annars vegar til lækkunar höfuðstóls eða til að kaupa húsnæði. Í meðferð í þinginu hefur þetta breyst. Þetta hefur farið úr 500 þúsund upp í 750 þúsund þannig að það er alveg ljóst að það geta ekki allir nýtt sér þetta úrræði alveg upp í 500 þúsund, hvað þá 750 þúsund. Þessi hækkun kemur sér best fyrir þá efnameiri, það er alveg ljóst. Það hefði verið hægt að gera þetta öðruvísi. Það hefði verið hægt að halda 500 þús. kr. markinu og lengja tímabilið um eitt ár þannig að fólk gæti ekki bara safnað 500 þúsundum í þrjú ár, sem mundi enda í 1,5 millj. kr., heldur gæti það safnað 500 þúsundum í fjögur ár. Þeir sem geta best nýtt sér þetta eru hinir efnameiri. Hvers vegna er þessi leið ekki farin til að jafna þetta aðeins út? En ókei, Sjálfstæðisflokkurinn er ekki jafnaðarflokkur.

Tökum saman í mjög stuttu máli hvað þetta kostar, þetta er nefnilega ekki ókeypis, og hvaða áhrif þetta mun hafa. Það kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að áhrif á ríkissjóð verða þau að ríkissjóður verður af 18–25 milljörðum kr. á árunum 2014–2017. Það tekjutap kemur fram á næstu 40 árum. Að teknu tilliti til breytingartillögu nefndarinnar á hámarksfjárhæðum til greiðslu inn á höfuðstól lána og öflunar íbúðarhúsnæðis verður tekjutap ríkissjóðs 35–49 milljarðar kr. á framangreindu tímabili. Þetta eru áhrifin á ríkissjóð. Hjá nefndinni kom fram að tekjutap ríkissjóðs yrði að fullu fjármagnað með auknum tekjusköttum ríkisins. Þar höfum við það, aukinn tekjuskattur á að fjármagna það tap sem ríkissjóður verður fyrir.

Áhrif á sveitarfélögin. Sveitarfélög verða af 9–12 milljörðum á þessum árum. Samkvæmt breytingartillögu nefndarinnar munu neikvæð áhrif á sveitarfélög nema 9–13 milljörðum á framangreindu tímabili. Að mati nefndarinnar kemur svo fram að óhjákvæmilega verði sveitarfélögin fyrir tekjutapi. Fyrirgefðu? (Gripið fram í: Meiri hluta nefndarinnar.) Já, meiri hluta nefndarinnar, sagði ég það ekki? (Gripið fram í: Nei.) Þetta er nefndarálit meiri hluta nefndarinnar svo það sé alveg ljóst, ef ég hef farið rangt með.

Áhrif á lífeyriskerfið. 60–85 milljarðar kr. á verðlagi ársins 2014 renna ekki til ávöxtunar hjá vörsluaðilum séreignarsparnaðar fram til ársins 2019 heldur umbreytast í annað sparnaðarform íbúðarhúsnæðis. Sú fjárhæð bætist við þá 100 milljarða kr. sem þegar hafa verið teknir út úr kerfinu eftir hrun.

Áhrif á Íbúðalánasjóð. Af hálfu Íbúðalánasjóðs kom það mat fram að lauslega mætti ætla að tjón sjóðsins af uppgreiðslu næmi 3,5–11 milljörðum kr. á ári eða 7,5–24 milljörðum samtals yfir fjögurra ára tímabil. Svo er einnig bent á að stjórnvöld geti brugðist við með aðgerðum til að draga úr kostnaði sjóðsins. Hvernig væri það gert? Það get ég ekki séð öðruvísi en ríkissjóður mundi taka það allt á sig. Þetta er það sem það kostar.

Ýmsir aðrir hagsmunaaðilar töldu úrræði frumvarpsins ná til of þröngs hóps. Menn töluðu um að það næði ekki til leigjenda, nei, það gerir það ekki, það er ekki það sem sjálfstæðismenn lofuðu. Þetta er þeirra frumvarp, byggt á kosningaloforðum þeirra.

Svo eru það þeir sem eru ekki í vinnu, eru ekki með tekjur, eins og námsmenn sem eru ekki með tekjur yfir þetta tímabil næstu þrjú árin. Þeir gæti nýtt þetta þótt þeir séu ekki með fyrstu tvö árin, ef þeir væru með næstu þrjú árin þar á eftir gætu þeir nýtt sér þetta. En þeir sem eru t.d. að fara í nám og fara svo í meistaranám og þeir sem eru með litlar eða engar tekjur geta ekki nýtt sér þetta. Lausnin fyrir þá á að vera nýja húsnæðiskerfið sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra mun leggja fram lagafrumvarp um.

Festa á í sessi þá leið að á þriggja ára tímabili geti fólk safnað séreignarsparnaði og notað til að kaupa sér húsnæði. Það nær samt sem áður ekki til þeirra sem mundu niðurgreiða lánin en að einhverjum hluta nær þetta til þess hóps sem hefði annars orðið út undan.

Aðrir sem eru með lífeyrissparnað í sjóðum eins og Allianz eða Bayern, nokkurs konar lífeyristryggingu eða séreignarsparnaðarlífeyristryggingu erlendis — fyrir þá þurfti aðeins að bregðast við til að þeir gætu líka nýtt þetta, sem var gert og er ánægjulegt.

Til að taka þetta saman, þetta rímar mjög nálægt þeim loforðum sem Sjálfstæðisflokkurinn gaf fyrir kosningar. Þetta er þeirra skuldaleiðréttingarfrumvarp. Það nær bæði yfir lækkun (Gripið fram í.) á höfuðstóli og til þeirra sem — framsóknarmenn í salnum vilja reyna að eigna sér þetta. Voruð þið að lofa þessu í alvörunni? (Gripið fram í: Já, já.) Já, ókei. Framsóknarmenn í salnum segjast líka hafa lofað þessu. Ég sá það ekki í loforðum þeirra en ókei. (Gripið fram í: Þú verður að lesa þau.) Menn geta skoðað þetta í kosningaloforðum þeirra. Ég mun líka gera það betur. Sjálfstæðisflokkurinn er alla vega að uppfylla sín kosningaloforð vel hvað þetta varðar svo að við gætum allrar sanngirni.